11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Sigurður Stefánsson:

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hefir lýst alveg rjett afstöðu okkar háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) til þessa máls í nefndinni. Jeg tók fram í fyrri ræðu minni, að það væri síður en svo, að jeg væri mótfallinn þessu máli, þótt jeg að svo stöddu treystist ekki að fylgja því. Jeg get ekki fylgt þessu máli á öðrum grundvelli en þeim, að báturinn verði aldrei notaður til annara starfa en björgunarstarfs, að minsta kosti ekki á vertíðinni. Þegar slíkur bátur verður keyptur — hvort sem það verður nú eða síðar — á hann að ganga frá Vestmannaeyjum. Um það er jeg í engum efa. Þar er útvegur mestur, þar er í enga höfn að venda, ef ekki næst til Eyjanna sjálfra, og þar búa landsetar landssjóðs einir. En mál þetta þarf að undirbúa af viti og dugnaði, og umfram alt má ekki ætla bátnum annað starf, svo að nokkru nemi, en björgunarstarfið. Það hefir verið sagt, að veður sjeu svo góð á sumum árstíðum, að þá þurfi björgunarbáts ekki með. En jeg hjelt, að ekki þyrfti mikla þekkingu á íslensku veðurfari til að vita, að hjer geta slys borið að höndum á sjó á öllum ársins tímum. Á sumrum geta bátar róið á sjó í blíðalogni og þó sokkið í sjó fleiri en einn áður en kveld er komið. Ofviðrið er ekki lengi á að skella. — Það hefir verið sagt, að mál þetta hafi verið undirbúið í Vestmannaeyjum. En hvaða undirbúningur er hafinn þar? Hefir verið stofnað þar fjelag? Er búið að safna nokkru hlutafje? Eða hvað? Jeg geri ráð fyrir, að á málið hafi verið minst í Vestmannaeyjum, um það verið talað þar, og að þessu gefi menn nafnið „undirbúningur“. En hvaða undirbúningur er slíkt laust umtal? Jeg er háttv. þm. Dala. (B. J.) samdóma um, að vandfarnara er með mannslífin en fjeð, en ef bjarga á mannslífum verður að sjá fyrir því, að báturinn, sem til þess er ætlaður, sje ekki bundinn öðrum störfum, þegar á honum þarf að halda. Jeg hefi fulla tilfinningu fyrir því, að mannslífin eru dýrmæt, og því vil jeg hafa tryggingu fyrir, að báturinn geti orðið að liði, þegar til hans þarf að taka. En nú er alt þetta mál í lausu lofti. Hjer er þingið að eins að bjóða út fje út í loftið.