01.06.1918
Efri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Magnús Torfason:

Jeg þarf ekki að vera óánægður með till. háttv. fjárveitinganefndar; hún hefir í rauninni samþykt og játað rjett vera það, sem farið er fram á í till. minni.

En það, sem hún ber fyrir sig til að draga úr, er misrjettið, sem aðrir mundu verða fyrir, ef farið væri eftir tillögunni óbreyttri.

En það getur oft staðið svo á, að misrjetti verði að beita; það fer alt eftir því, hvort rjett hefir verið gert áður eða ekki.

Ef það væri alment álitið, að 300 kr. eftirlaun til pósta væru sanngjörn og nógu há, þá væri hjer um verulegt misrjetti að ræða.

En nú hygg jeg, að flestir álíti þau alt of lág, og er það skiljanlegt að þau sjeu ekki hærri, þar sem hjer er um menn úr alþýðuflokki að ræða, en allir vita, hvaða kjörum slíkir menu eiga að sæta.

En þess er ekki gætt, að til póstþjónustu þarf afburðamenn og að sá starfi slítur fljótt vinnuþreki manna. Jeg er því ekki í neinum vafa um, að það er skylda þingsins að hækka laun allra pósta, og þess vegna get jeg gert mig ánægðan með það, að fjárveitingin til þessa manns er bundin við þrjú ár, því að jeg þykist þess fullviss, að þjóðin sjer sóma sinn í því að bæta kjör póstanna sem fyrst.

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) var að hnýta við háttv. fjárveitinganefnd; fann hann henni það til foráttu, hve nál. hennar væru stutt að öllum jafnaði. En þess verður að gæta, að munur er á, hvort máli er vísað til fjárveitinganefndar eða önnur nefnd leitar álits hennar, ellegar hún lætur í ljós álit sitt á máli, sem alls ekki er vísað til nefndar. Þetta hefir sá háttv. þm. (G. Ó.) ekki gert sjer fyllilega ljóst.

En svo að jeg víki aftur að manni þeim, sem hjer er um að ræða, þá vil jeg geta þess, að hann hefir alla tíð verið göngupóstur, og það er allmikill munur á því að ganga yfir heiðarnar þar vestra í verstu ófærðum eða þeysa á gæðingunum hjer sunnanlands.

Maður þessi hefir ekki getað unnið þunga vinnu, en er mjög laginn til ferða og hefir því, þrátt fyrir taugaveiklun sem hann þjáist af, getað með hjálp annast póstferðirnar.

Og eins og jeg hefi tekið fram áður, hafði hann altaf mann með sjer síðastliðinn vetur, og hafa eigur hans því gengið til þurðar; því að þótt póstar hafi altaf verið lágt launaðir, var ekki hækkað flutningsgjaldið að sama skapi og tilkostnaður þeirra jókst sakir örðugleika stríðsins og verðfalls peninga.

Þessi maður hafði samt sem áður hugsað sjer að halda ferðunum áfram, en þá er póstleiðinni alt í einu breytt, svo að hann er sama sem sviftur stöðu sinni.

Jeg býst svo ekki við að þurfa að fara fleiri orðum um mál þetta, en vona, að háttv. deild sjái þá sanngirni, er mælir með því, að till. verði samþykt.