01.06.1918
Efri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vildi segja fáein orð um mál þetta, vegna þess, að kringumstæður allar eru mjer kunnar.

Jeg lít svo á, að þegar verið er að vega niður laun manna, þá verði að vega verkin og kringumstæður allar, til þess að fult samræmi verði milli launanna og þess, sem fyrir þeim er haft.

Jeg verð að játa með aðalflm. málsins (M. T.), að þegar litið er á póststöðurnar, þá verður því ekki neitað, að þær eru mjög erfiðar og póstum altaf vangoldið. Auk þess eru póstleiðir mjög misjafnar. Og þeir, sem þekkja þessa póstleið, sem hjer er um að ræða, vita, að hjer er yfir mjög torsóttan fjallveg að fara og mjög erfiðar göngur. En aðalókosturinn við þennan póstveg er samt þó, að helmingurinn af póstleiðinni er sjóleið. Sú sjóleið er stórhættuleg, einkum á vetrum, og fje landsins jafnan teflt í tvísýnu á þeirri leið, svo að mikið er undir því komið, að pósturinn sje árvakur og gætinn, enda reyndist hann þarna ágætlega; þó að hann hrepti oft vond veður og slæmt væri í sjóinn, kom það aldrei fyrir, að póstfarangurinn biði tjón af. Sjálfur varð hann að leggja sjer til báta.

Sem dæmi upp á framúrskarandi dugnað og gætni þessa manns minnist jeg þess, að eitt sinn urðu bátsmenn að leggja bátnum, sem flutti bæði póstinn og annan farangur, fram af ögri um nótt, vegna óveðurs. Hvorki formaður nje hásetar treystust til að flytja farangurinn í land, en Jóhannes póstur hætti ekki fyr en hann hafði komið öllum póstinum á land. Um morguninn var báturinn sokkinn, og var það eingöngu að þakka dugnaði og kappi Jóhannesar, að landið beið ekki stórtjón.

Enn er eitt í sambandi við þetta, að það er mjög erfitt fyrir póst að búa í 5—6 mílna fjarlægð frá þeim stað, þar sem hann þarf að geyma hestana. En þarna er svo ástatt, að fóður er lítt fáanlegt, þar sem er mest sauðbeit. Þetta hefir orðið póstinum mjög erfitt og útgjaldasamt, þótt hann hafi ekki þurft að leita fátækrastyrks enn sem komið er.

En auk þess, sem efnaleysi hans hefir fyrst og fremst stafað af lágum launum og hinum erfiðu kringumstæðum í sambandi við póststöðuna, þá hefir hann auk þess átt að stríða við mjög erfiðan sjúkdóm á konu sinni, sem var veik í mörg ár, en er nú látin.

Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú tilfært, verð jeg að meta hærri eftirlaun manni, sem hefir haft við slíka erfiðleika að stríða og yfir slíkar vegleysur að fara. Og það þarf alls ekki að vera fordæmi fyrir aðra pósta, þó að þessum manni sjeu goldin biðlaun. Jeg segi ekki, að hann geti ekki gegnt póststarfi enn, og því alls ekki rangt að kalla þetta biðlaun, eins og háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) hjelt fram. En þegar pósturinn á ekki að ganga lengur frá Ísafirði að Hjarðarholti, heldur frá Arngerðareyri að Búðardal, þá er það í raun og veru sama og að gera þessum manni ómögulegt fyrir með að halda starfinu áfram, því að pósturinn verður að eiga heima á annari hvorri endastöðinni, en hann á heima á Ísafirði. Þess vegna er manninum vísað frá í raun og veru, og hann á því að fá biðlaun.

Hitt skal jeg játa, að laun allra pósta sjeu alt of lág, og að þeir ættu helst skilið hækkun af öllum starfsmönnum þjóðarinnar.