01.06.1918
Efri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Guðmundur Ólafsson:

Mjer skildist svo á háttv. þm. Ísaf. (M. T.), að þessi póstur færi mest gangandi og væri farinn að láta sig. Stundum er hann talinn útslitinn og hefði því orðið að hafa fylgdarmann í vetur. En svo þegar háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) kemur til skjalanna, koma sjóferðir og hestaferðir, svo að á endanum verða það allskonar ferðir, sem þessi póstur hefir farið, og notað öll hjerlend flutningatæki. En hvað sem um allar þessar ferðir er að segja, þá finst mjer, að þegar einn úr þessari stjett fær þessa launahækkun, þá sje eðlilegt, að aðrir úr sömu stjett vilji fá það sama. Svo vil jeg benda á það, að það er alls ekki rjett að segja í greinargerðinni, að maðurinn sje þrotinn að heilsu, geti hann tekið þessar póstferðir að sjer aftur, eins og háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) bjóst við.