21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

36. mál, stimpilgjald

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 161. Eins og jeg gat um við 1. umr. þessa máls, þá mundi stimpilgjaldið koma hart niður á þeim, sem þyrftu að taka smálán, sem oft kemur fyrir meðal fátæklinga; þess vegna er hjer í brtt. fylgt sama taxta, sem hv. deild samþykti í fyrra, er þetta mál var til umræðu hjer á þingi. Þó er sá munur á, að hjer er stimpilgjaldið alt tvöfaldað, svo að samræmi sje milli þessa atriðis og annars í stjórnarfrv., og svo er bætt við nýju atriði um erlenda víxla og ávísanir, sem koma hingað og alls ekki eru borgaðir nje samþyktir. Þetta er gert til þess að fyrirbyggja, að þeir menn borgi stimpilgjald, sem senda hingað upp víxla eða ávísanir, sem svo liggja hjer og alls ekki eru borgaðar, því að það er hart að láta útlendinga gjalda stimpilgjald fyrir algerlega verðlausa „pappíra“. Þess vegna ætti stimpilgjaldið ekki að falla á erlenda víxla fyr en þeir eru samþyktir eða greiddir, og ef þeir eru það ekki, þá gætu bankarnir sent þá til baka, án þess að stimpilgjald falli á þá.

Jeg hefði viljað fara töluvert lengra í þá átt, að víxlar, sem borgaðir eru við sýningu, yrðu undanþegnir stimpilgjaldi, en jeg hefi þó ekki gert það, vegna þess að háttv. nefnd vildi ekki fara lengra. En það er þó mikil ósanngirni, að víxlar eða ávísanir, sem borgaðar eru út í hönd, skuli vera stimplaðar. Jeg vil enn fremur benda á það, að menn nota ekki nærri altaf tjekka, heldur ávísanir, á sparisjóðsinnieignir, en ef maður er svo hygginn að gleyma að nefna ávísunina tjekk, þá geta menn ekki komist hjá því að borga stimpilgjald. Þess vegna hefði ávísun, sem á að borga við sýningu, alveg átt að vera undanþegin stimpilgjaldi, og vildi jeg benda á þetta, ef háttv. Ed. kynni að vilja breyta þessu.

Annars þarf jeg ekki að eyða mörgum orðum um þessar breytingar á þgskj. 161, því að háttv. nefnd og hæstv. fjármálaráðh. hafa fallist á þær, og fel jeg svo háttv. deild að kveða upp úrskurðinn yfir þeim.