05.06.1918
Neðri deild: 40. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Sveinn Ólafsson:

Ýmsir hv. þm. hafa viknað eða jafnvel vöknað um augu við að heyra, hve innileg meðmælin eru með þessum pósti hjá þeim háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og Dala. (B. J.). En þrátt fyrir þau get jeg ekki sjeð, að fremur sje ástæða til þess að veita þessum manni biðlaun heldur en öðrum, er líkt stendur á fyrir, en ekki hafa leitað á náðir þingsins og munu ekki gera, nema þingið gefi þeim undir fótinn með það. Það eru margir starfsmenn landsins, sem líkt stendur á fyrir, og mun enginn af oss óska, að þeir komi hjer allir á eftir og fari fram á samskonar biðlaun sem þau, er hjer ræðir um.

Menn mega ekki skilja orð mín svo, að jeg vilji varpa skugga á þennan mann eða verðleika hans, enda kemur mjer ekki til hugar að rengja ummæli háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og háttv. þm. Dala. (B. J.) um hann. En jeg vil geta þess, að jeg þekki 2 pósta í mínu bygðarlagi, er líkt stendur á fyrir. Þeir hafa slitið sjer út á torsóttum póstleiðum, sem síst eru betri en þær vestfirsku, og orðið að sætta sig við þau sömu kjör, sem póstar eiga við að búa. Líkt mun víðar ástatt, og sje jeg ekki ástæðu til að setja alla aðra uppgjafapósta hjá, ef þessum á að veita viðurkenningu. Hann mun jafnfær þeim að komast af með þau eftirlaun, sem póstum eru mæld.

Jeg vil ekki opna dyrnar fyrir öllum slíkum mönnum, og því vil jeg, að þessi maður sitji við sama borð sem aðrir stjettarbræður hans.