05.06.1918
Neðri deild: 40. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Sigurður Stefánsson:

Jeg skal játa, að það er rjett, sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) tók fram, að varasamt getur verið að opna dyrnar fyrir svona fjárbeiðnum. En jeg skal taka það fram aftur, að hjer stendur sjerstaklega á. Breytingin á póstleiðinni gerir manninum sem sje ókleift að halda áfram starfinu, þó að hann hefði bæði heilsu og krafta til þess.

Fjárveitinganefnd Ed. hefir og litið svo á, að þess vegna mætti hjer gera undantekningu og veita manninum biðlaun í 3 ár.

Jeg gat þess ekki áðan, að maður þessi er algerlega eignalaus. Hann hefir verið launaður illa, sem aðrir póstmenn, og þess vegna ætíð barist í bökkum.

Jeg tók aftur á móti fram, hvílíkur afburðadugnaðarmaður hann væri. Skal jeg nú greina frá atviki úr póstsögu hans, er styður þetta. Í fyrra átti einhverju sinni að flytja póstinn milli Ísafjarðar og Arngerðareyrar. Er það 5 mílna sjóvegur. Veður var allhvast og úfinn sjór. Í þetta skifti vildi svo til, að formaður bátsins, er átti að flytja póstinn — margra þús. kr. virði — forfallaðist; hann hafði mynst of freklega við Bakkus. Pósturinn varð því að taka við skipstjórn, og fyrir dugnað hans komst skipið klaklaust til Arngerðareyrar. En öllum ber saman um, að báturinn hefði jafnvel farist ella með allri áhöfn. Þetta sýnir, að hjer er um ágætlega duglegan mann að ræða, er verðskuldar alt hið besta.

Það gæti komið fyrir, að póstmenn verði að segja af sjer af líkum ástæðum sem þessi maður. En jeg hygg, að það muni koma svo sjaldan fyrir, að þetta fordæmi sje ekki hættulegt. Jeg vona því, að háttv. deild lofi málinu að ganga til fjárveitinganefndar.