05.06.1918
Neðri deild: 40. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Bjarni Jónsson:

Það er sorglegt um háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Þegar við á vesturkjálkanum þurfum einhvers, förum fram á lán eða biðjum um styrk eða eftirlaun handa einhverjum manni, þá kveður hann óðar þörf á þvílíku austur á fjörðum. (Sv. Ó.: Hefi ekki beðið um neinar fjárveitingar). Altaf kemur eitthvað í ljós, er þarf austur á fjörðum, en háttv. þm. (Sv. Ó.) dettur ekki í hug að bera það fram.

Jeg hefi oft stutt þingmenn Austfirðingafjórðungs í fjárbeiðnum þeirra, bæði til Eiðaskólans, Fagradalsbrautarinnar o. fl. En aldrei hefi jeg staðið upp öndverður og sagt, að við fyrir vestan þyrftum slíkt hið sama. Og standi líkt á fyrir póstum á Austfjörðum sem þessum manni, mun jeg telja mjer skylt að fylgja rjettu máli um þá, jafnt sem aðra, þó ekki fyr en rök hefðu verið færð fyrir verðleikum þeirra. Jeg mundi að eins líta á það, hvað rjett væri og sæmilegt fyrir þann vinnuveitanda, sem heitir Ísland.

Ekki er jeg hræddur, þó að þær dyr verði opnaðar, að sýna trúum þjónum einhverja viðurkenningu fyrir vel unnið starf. Um þær dyr göngum við aldrei til glötunar. En til eru hættulegri dyr, sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó) hefir ef til vill rjálað lítið eitt við. Það eru þingveitt eftirlaun, og tel jeg þau mun hættulegri en þó að einum pósti sjeu veitt biðlaun ákveðið árabil.