05.06.1918
Neðri deild: 40. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi litlu að svara háttv. þm. Dala. (B. J.) Heyrði ekki síðustu fyndni hans.

Af því að háttv. þm. Dala. (B. J.) vill beina því að mjer, að jeg amist við fjárbeiðnum úr Vestfirðingafjórðungi, verð jeg að taka það fram, að jeg hefi ekki gert neinn mun á fjórðungunum í því atriði. En aftur hefi jeg tekið eftir því, að fjárbeiðnir á þessu þingi koma aðallega þaðan. En á þessu þingi ættum vjer fremur en nokkru sinni ella að gjalda varhuga við þessum bitlingabænum.

Þar sem háttv. þm. (B. J.) hældi sjer af því, að hann hefði veitt fjárbeiðnum úr Austfirðingafjórðungi fylgi sitt, svo sem fjárveitingum til Eiðaskóla og Fagradalsbrautar, þá er því til að svara, að Eiðamálinu var ekki þann veg háttað, að fjárframlag þyrfti úr landssjóði; það var beinlínis gróði fyrir landssjóð, að málið náði fram að ganga. Múlasýslur færðu landssjóði með því stórgjöf, og ekkert hefir enn á móti komið, hvað sem verða kann. (B. J.: Háttv. þm. (Sv. Ó.) man ekki eftir fyrri þingum). Að háttv. þm. (B. J.) hafi greitt fjárveitingu til Fagradalsbrautar atkvæði sitt er ekki undarlegt eða sjerlega þakkarvert. Samskonar brautir hafa verið lagðar á Suður-, Norður- og Vesturlandi, og er þessi braut eystra ekki nema einn lítill liður í vegakerfi landssjóðs.

Jeg vil ekki ala upp beiningamannahugsunarhátt hjá fjórðungsbúum mínum og þykist ekki heldur hafa gert það. Þess vegna get jeg ekki tekið tilboði háttv. þm. Dala. (B. J.) um að styðja fyrir mig samskonar fjárbæn og þessa. Og þó að jeg tilnefndi menn þar eystra, er líkt stæði á um sem þennan mann, er hjer ræðir um, þá var jeg ekki að mælast til neins fyrir þeirra hönd. Jeg vildi einmitt ekki gefa þeim tækifæri til þess að beiðast styrks frá þinginu eða berja lóminn, eins og hjer hefir gert verið.