05.06.1918
Neðri deild: 40. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Hákon Kristófersson:

Jeg get að nokkru leyti tekið undir með háttv. 1. þm. S. M. (Sv. Ó ), að varhugavert er að fara mikið út á þá braut, að veita mönnum hærri biðlaun eða eftirlaun en lögum er samkvæmt.

En jeg lít svo á, að hjer sje ekki um eftirlaun að ræða. Jeg er að öllu leyti samþykkur hinni rjettmætu ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St ). Hjer er að ræða um uppbót á skaða, sem hann hefir beðið þegar póstleiðinni var breytt og honum gert ókleift að halda starfi sínu áfram.

Um öll þau ár, sem maður þessi hefir haft póststarfið á hendi, hefir hann haft bækistöð sína í Bæ í Króksfirði, haft þar hlöðu, hesthús, hey o. s. frv. Nú getur hann ekki notað þessa eign sína, og er honum ekki unt að halda sýslaninni áfram, þar sem hann er fátækur og hefir eigi efni á að byggja annarsstaðar, sem að sjálfsögðu væri nauðsynlegt, þar eð póstafgreiðslan hefir verið færð. (Sv. Ó.: Hann getur selt heyin og hesthúsið). Að vísu, en hann fer þó ekki póstferðir á peningunum.

Þótt jeg geti verið að nokkru leyti samdóma háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó ), þá verð jeg að lýsa mjög mikilli undrun og óánægju yfir því, að þessi póstur skuli vera kallaður beiningamaður hjer í háttv. deild. Það eru ómakleg orð eftir trúlega unnið 25 ára starf hans. Það virðist og sjálfsögð skylda þingsins að hlaupa undir bagga og veita viðurkenningu fyrir vel unnið, illa launað starf, þar sem breytingin á póstleiðinni veldur því, að hann getur ekki haldið því áfram.

Jeg vil bæta því við, að við allir, sem höfum átt saman við hann að sælda sem sýslunarmann, söknum hans. Við teljum vafasamt, að við fáum hans líka aftur, án þess þó að nokkrum skugga sje kastað á eftirmann hans.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) skýrði frá einu dæmi um dugnað þessa manns og snarræði. Póstmeistari hefir skýrt mjer frá því, að öðru sinni hafi hann bjargað póstinum með skyldurækni sinni. Pósturinn hafði þá sem oftar verið fluttur á vjelbát, en sökum óveðurs náðu þeir ekki ákvörðunarstaðnum og urðu að lenda í ögri. Þar var bátnum lagt á floti um nóttina, eins og oft er venja til, en Jóhannes vildi ekki skilja póstinn þar eftir næturlangt, og var hann því tekinn á land. Morguninn eftir var báturinn sokkinn og margt af því, er í honum var, tapaðist. Hversu mörgum þúsundum króna Jóhannes hefir bjargað með þessari skyldurækni sinni er ekki gott að segja, en mun þó mega fullyrða, að fleiri hafi verið en þau, sem hjer er farið fram á að veita honum sem heiðurslaun fyrir hans margra ára vel unnu störf.