19.04.1918
Neðri deild: 5. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

7. mál, sjálfstæðismál landsins

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætla mjer ekki þá dul, að fræða háttv. þm. um, hver máttur fylgir frelsi og sjálfstæði þjóðar; þó mun jeg leyfa mjer að drepa á eitt atriði.

Mönnum er kunnugt rit Ibsens, „Et Dukkehjem“, þar sem sagt er frá húsfreyju einni, Noru að nafni. Nú vil jeg biðja þá menn, er sjeð hafa það leikrit eða lesið, að setja sjer fyrir hugskotssjónir muninn á þessari konu, meðan hún var brúða á heimili sínu, og síðan er hún stóð á eigin fótum og lærði, hver munurinn er á því, að láta aðra hugsa og framkvæma fyrir sig, og hinu, að gera alt á eigin ábyrgð.

Sami munur er á undirlægjuþjóð og fullvalda þjóð, sem ræður öllum gerðum sínum og ber ábyrgð á þeim. Hin fyrnefnda mænir til yfirþjóðarinnar og bíður þess, að hún uppljúki sinni hendi og seðji hjálenduna af náð sinni. Hin síðarnefnda vakir sjálf yfir velferð sinni og herðir hverja taug til framkvæmdanna og — lifir þar sem hin deyr.

Þetta er gamall og alþektur sannleikur, sem mannkynssagan sannar með ljósum og alþektum dæmum. Einkum er oss þetta kunnugt af vorri eigin sögu. Eftir því sem kúgunarloppan herti fastar að hálsi þjóðarinnar, eftir því urðu landsmenn úrræðaminni, en eftir því sem sjálfstæði vort jókst, eftir því hefir þjóðin orðið úrræðabetri.

Slíkt er á öllum tímum mikilsvert, en einkum þó í Hjaðningavígum þeim, er nú standa yfir í heiminum.

Síðasta þing sá þetta í fyrra og sá, að Íslendingum var einkum þörf á því sjálfstæðismerki, er fáni nefnist, og að vel gat lif þjóðarinnar verið komið undir því, að hún hefði sinn eigin fána. Því að það er alkunnugt, að oft lá við, að Norðurlandaþjóðunum yrði neitað um alla vistaflutninga vestan um haf, og þá ekkert líklegra en að Íslendingar yrðu útilokaðir frá þeim, ásamt hinum Norðurlandaþjóðunum, svo lengi, sem þeir sigldu undir fána einnar þeirra. Þar í liggur, að það að fá fánann viðurkendan er ef til vill eitthvert hið mesta bjargráð, sem ráðið verður þessari þjóð. Það er eitt af því, sem mest ríður á, og eitt af því, sem síst má dragast af öllum þeim bjargráðum, sem eru í framkvæmd.

Það er öllum kunnugra en frá þurfi að segja, að Alþingi samþykti þingsályktunartill. til konungs um að breyta sínum eldri úrskurði um þann lítilfjörlega fána, er vjer höfum fengið og aldrei þurfti að fá viðurkendan, og sumir hafa nefnt skattlandssvuntu, því að heimilt er hverjum manni að sigla á landi og í landhelgi undir hverri þeirri dulu, er hann vill, jafnvel þótt hann vilji sigla undir svuntu konunnar sinnar, og að láta fullkominn farfána koma í staðinn.

En svarið er nú kunnugt orðið, — að þessari beiðni neitaði konungur, en þar var líka annað í svari hans. Honum þótti ekki gott að taka þetta mál eitt út úr sjálfstæðismálum lands þessa, ljest heldur mundu kjósa að taka þau öll til athugunar í sameiningu. Það ætti síst að standa á oss Íslendingum að taka þau fyrir öll í einu, ef liðugt yrði um viðurkenningu á íslenskum rjetti, en Alþingi tók fánann út úr vegna þess, að það var lífsnauðsyn að fá hann. En fáninn er auk þess fullveldismerki, eða að minsta kosti höfðum vjer þann formála hjer.

Vjer getum búist við, að höfð verði nú á þinginu tvennskonar meðferð á þessu máli; önnur yrði sú, að tala við þann sendimann, sem konungur kynni að senda, eftir ummælum sínum við forsætisráðherra. EC hann gerir það, þá er það vitanlegt, að Alþingi muni sýna þá hæversku að tala við þann mann, og ef sá maður hefir umboð af konungs hendi til þess að samþykkja allar rjettarkröfur Íslands, hreint konungssamband og fullveldi (jus legationum, jus foederum ac tractatuum, potestas belli ac pacis), þá gæti sú aðferð orðið eins góð og hver önnur. Hin aðferðin gæti orðið með tvennum hætti, hinum harðara og hinum mildara. Hinn harðari væri, að talið væri úrslitasvar það svar, sem þegar er komið, og að vjer rjeðum ráðum vorum eftir því. Þá er hinn mildari hátturinn, að þingið gæfi konungi aftur kost á að veita fánann. En við hvora aðferðina um sig er hætta, ef þingmenn gæta sin ekki nje gæta þeirrar miklu nauðsynjar, sem á er málinu.

Í fyrri aðferðinni, sem jeg nefndi, ef sú aðferð væri höfð, liggur hættan í því, að ef sá sendimaður, sem jeg nefndi, segði sem svo, að hann gæti ekki í einum svip samið um slíka hluti, og að heppilegast væri, að nefnd yrði sett af Íslendingum og Dönum til þess að ræða um málið, þá frestast úrslitin, en það er að láta tækifærið fara fram hjá, gegna því ekki, þegar það ber að dyrum. Vona jeg, að þingmenn láti það ekki koma fyrir.

Í mildari aðferðinni er sama hættan, frestunarhættan. Gerum ráð fyrir, að þingið samþ. frv. um fánann, og mundu menn auðveldlega verða sammála um það. En þegar fánafrv. er samþ., er þó ekki sama, hve nær það er borið upp fyrir konunginum, og skal jeg geta þess, að það er eina skilyrðið, sem dygði til þess, að jeg greiddi atkv. með slíkri aðferð, að frv. yrði þegar borið upp fyrir konungi og svarið fengið áður en þessu þingi væri slitið. Þá verður fresthættan minni, ef slík aðferð er höfð, og það tel jeg ekki að eins sjálfsagt, heldur lífsnauðsyn; það er að vísu satt, að frestur er á illu bestur, en hitt hefir enginn sagt, að frestur væri á góðu bestur. Jeg tel það víst, að allir þeir háttv. þm., sem greiddu till. í fyrra atkv. sitt, og það voru allir þingmenn, hver einn og einasti, með nafnakalli. (M. Ó.: Hefir háttv. þm. ekki athugað, að það verður að bera málið undir þjóðaratkvæði og að hann hefir sjálfur óskað þess?) Jeg skal svara þessu strax. Ef háttv. þm. (M. Ó.) hefir lesið stjórnarskrána, mun hann hafa sjeð, að breytingar á sambandinu milli Íslands og Danmerkur þarf að vísu að bera undir þjóðaratkvæði þegar þingið hefir gengið frá þeim, en ekki fyr. Jeg tek þá aftur upp þráðinn í ræðu minni. Jeg hygg, að hver háttv. þm., sem greiddi málinu atkvæði sitt í fyrra og heyrt hefir um afdrif þess, muni nú hafa komið til þings staðráðinn í því að fara ekki aftur heim fyr en yfirlyki í þessu máli. Jeg skal taka það fram, að jeg segi þetta í mínu eigin nafni; jeg hefi ekki umboð til þess að segja þetta fyrir alla þá, sem á till. standa, en hygg þó, að jeg fari ekki langt frá þeirra vilja. Það kæmi mjer á óvart, ef nefnd þyrfti til þess að ákveða slíkt, eða gera tillögu um það, að málinu skuli lokið áður en þingi slítur. En það er ekki sama, á hvern hátt þetta er gert eða hver aðferð er höfð, nje heldur hvernig snúist er við þeim málaleitunum, sem koma kunna frá hinni hliðinni. Og þess vegna hefir mjer og öllum öðrum tillögumönnum þótt þörf á að skipa nefnd til þess að athuga fánamálið sjerstaklega og öll sjálfstæðismál landsins; og vænti jeg, að ekki verði skiftar skoðanir um það.

Áður en jeg sest niður vildi jeg geta þess, hverjar sigurvonir jeg tel Íslandi nú á þessum tíma í málinu. Er þá skjótt á að minnast, að þær ófriðarþjóðir, sem nú heyja þetta langmesta stríð, sem verið hefir í heiminum, hafa allar haft það á oddinum og kveðið ríkt að því, að þær berjist fyrir almennum mannrjettindum og fyrir rjetti smáþjóðanna. Það er alkunnugt, að Englendingar og bandaþjóðir þeirra kveða ríkt að um þetta og að miðríkin meðal annars hafa bjargað sjálfstæði Finnlands og Persalands.

Þess vegna er auðvitað, að nú er hugarfar manna og stefna í heiminum oss svo hagkvæm, að mikil von er um, að menn geti fengið málum vorum framgengt í sátt og samlyndi við þá þjóð, sem vjer erum í einskonar bandalagi við. En það, sem jeg tel enn meiri sigurvon í þessu máli, er sá mikli viðburður, er gerðist á síðasta þingi, og aldrei hefir fyr fyrir komið, sá, að allir þm. voru samtaka um þetta mál. Oss er kunnugt, hversu lengi frændur vorir í Noregi máttu berjast og glata vonum sínum jafnóðum og þær komu fram, vegna þess, að ekki fjekst samheldni. En þegar hún fjekst loksins, þá stóðst ekkert við; þá fengust rjettmætar kröfur þeirra uppfyltar með góðu og ófriðarlaust. Jeg tel það mesta sigurvon og mesta von um, að hamingja Íslands hafi nú snúið við blaðinu og ætli að verða því góð, að háttv. þm. í fyrra hurfu allir að einu ráði um þessar kröfur, og vona, að ekkert það afl sje til, sem geti fengið nokkurn þm. til að hverfa frá málinu eða rjúfa þá samheldni, sem hepnaðist að ná á síðasta þingi.

Vil jeg þá að lokum minna menn á söguna um tækifærið. Maður nokkur sat á heimili sínu og heyrði, að barið var að dyrum, en hann var annaðhvort að lesa í bók eða að kveikja í pípunni sinni, og lauk ekki upp fyr en um seinan; þá var gesturinn farinn En sá gestur var tækifærið. Og það kom aldrei að dyrum hans eftir þetta.

Það er traust mitt á skýrleika og trúmensku þeirra fulltrúa, sem þjóðin hefir sent á þetta þing, að þeir láti ekki tækifærið ganga frá dyrunum, því að það er sannast að segja, að vel geta liðið aldir áður tækifærið berji hjer aftur að dyrum.