26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Flm. Gísli Sveinsson):

Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að svo stöddu að hafa langan formála fyrir þessar till. Það, sem í stuttu máli vakir fyrir oss tillögumönnum, og jeg býst við allri hv. deild, er, að þetta efni, sem till. fjallar um, sje athugað og rannsakað. Býst jeg ekki við, að það verði ágreiningsefni. Þarf ekki að taka það fram, að þetta mál, verslunarmálið, er eitthvert mikilvægasta umhugsunar- og viðfangsefni þings og stjórnar síðan ófriðurinn hófst, og mun verða það meðan hann geisar. Ekkert mál er eins mikilvægt og þær framkvæmdir, bæði út á við og inn á við. Þess vegna hefir og landsstjórnin verið í mesta vanda stödd, og þingið hefir lagt hina mestu áherslu á þessar ráðstafanir. En um leið og þetta mál er svo mikilvægt, þá er það og eðlilegt, að því sje fylgt með mikilli athygli, ekki einungis á þingbekkjum, heldur og úti um alt landið. Það er mjög svo eðlilegt, því að þessar framkvæmdir snerta hagsmuni alls almennings, hvað öflun nauðsynja og verðlag snertir og annað, er þar að lýtur.

Stjórnin hefir nú um nokkurn undanfarinn tíma haft með höndum þær framkvæmdir, sem hún hefir aldrei haft slíkar áður, og fáa mun hafa dreymt um að komast mundu í hendur stjórninni. Þá er það og, að landsstjórnin hefir sætt allmiklum aðfinslum út af framkvæmdum sínum og ráðstöfunum í þessu efni. Hafa þær oft þótt orka tvímælis, bæði gagnvart vilja þingsins og eins, hvort hyggilega væri að farið. Þingið hefir að sjálfsögðu ekki gert annað í þessum framkvæmdum en að fela stjórninni í stórum dráttum að fara með málið. Þessar framkvæmdir hafa að mestu snúist um og verið innifaldar í landsversluninni. Fram að síðustu tímum hafa allar þessar framkvæmdir hvílt á herðum stjórnarinnar, og þótt landsverslunin sje nú komin í annara hendur, þá er þó svo, að stjórnin ber ábyrgð á rekstri hennar fyrir þingi og þjóð.

Jeg hygg það mála sannast, að almenningi úti um land sje ekki umhugað um annað meira en að þingið komist að sem ábyggilegastri niðurstöðu um það tvent, fjármálin og þær mikilsverðu ráðstafanir, er stjórnin hefir gert í verslunarmálinu. Býst jeg við, að enginn þingmaður vilji svo heim koma af þingi, að hann geti ekki sagt kjósendum gerla af þessum framkvæmdum. Það á hjer líka við, sem sagt var um till., sem hjer var nýlega á ferðinni, um að fjárhagsnefnd athugaði fjárhag landsins, að alt þetta er svo best, að öllum sje ljóst, hvað verið er að gera og gert hefir verið. Það er áríðandi, ekki að eins fyrir allan landsins lýð, heldur og frá mínu sjónarmiði hvað mikilvægast fyrir landsstjórnina, sem annaðhvort hefir farið með eða á að fara með málin. Því er till. orðuð svo, að athuga skuli verslunarframkvæmdir landsins, bæði inn á við og út á við, og ráðstafanir allar, sem gerðar hafa verið og hjer að lúta. Það liggur í till. þessari, að nefndin á sjerstaklega að athuga þær framkvæmdir, sem þegar hafa fram farið. En henni er ekki ætlað að gera till. um framtíðarfyrirkomulag, nema þær tillögur leiði beint af rannsókn hennar. Það er hlutverk bjargráðanefndar að koma með till. um bjargráð í framtíðinni. En vafalaust er mikið unnið við það, bæði fyrir þá nefnd og oss þingmenn og hæstv. stjórn, að fá að vita, hvernig í öllu liggur, því að af því geta allir þessir aðiljar væntanlega lært eitthvað nytsamt um það, sem fram undan er. Ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu, að mikið af þessum ráðstöfunum hafi verið hyggilegar, þá er ástæða til að ætla, að þingið vilji halda sömu braut í aðalatriðunum. En komi hitt í ]jós, að ráðstafanirnar hafi verið athugaverðar, þá má hins vegar ætla, að þingið fari aðra leið, reyni að finna önnur bjargráð.

Því er nú ekki að leyna, eins og jeg vjek að áðan, að mjög tíðrætt hefir orðið um ýmsar framkvæmdir og ráðstafanir stjórnarinnar; sjerstaklega hafa komið fram í blöðum landsins allmiklar aðfinslur og óánægja með ýmislegt, sem landsstjórnin hefir gert eða orðið að gera í þessu efni. Jeg býst við, að landsstjórnin líti svo á, sem hún hafi orðið að gera alt, sem hún gerði. Sumt hefir að sjálfsögðu verið þannig vaxið, að hún varð að gera það, en um margt eru menn ekki á eitt sáttir. Þetta er þá það, sem nefndin á að gera meðal annars: að athuga, hvað nauður rak til að gera, ef um ráðstafanir er að tala, sem ekki eru álitnar heppilegar. Jeg býst við, að öllum sje kært, að það sanna leiðist í ljós um þau efni, og sjerstaklega þar sem aðfinslur hafa verið svo miklar, sem raun er á orðin, og jeg skil svo raddir, sem hingað til hafa komið frá stjórninni, sem henni sje þetta kært, — svo að bert gæti orðið, hvað rjett er.

Það er líka víst, að allur almenningur á heimtingu á að vita deili á þessu, því að bæði nú og eins að lokum verður það almenningur, sem þetta kemur niður á og á þessu fær að kenna, því að það gefur að skilja, að þetta er alt gert vegna almennings, en ekki vegna einstakra manna, nje heldur til að þjóna neinni einstakri stefnu, geri jeg ráð fyrir. Alt það, sem hjer heyrir undir, er svo margháttað og víðtækt, að það er ekki rjett að fara að rekja það hjer, enda er það nefndarinnar verk; en líka er hitt, að svo mikið verkefni er það, sem fyrir henni liggur, að mikil spurning getur verið um það, hvort ein nefnd, þótt vel skipuð sje, geti leyst það af hendi á svo skömmum tíma, sem hjer á þessu aukaþingi hlýtur að vera afskamtaður, — en hins vegar er það skylda vor að gera gangskör að því, að reyna að komast sem fyrst að einhverri ábyggilegri niðurstöðu um höfuðatriðin, eftir því sem tíminn vinst til.

Undir þetta verksvið væntanlegrar nefndar heyrir að sjálfsögðu öll vöruútvegun, vörusala, leiga á skipum, ráðningar starfsmanna og sendimanna til útlanda og, eins og nú stendur á, vátryggingar skipa og ráðstafanir með þau o. fl. Menn kannast við öll þessi atriði, m. a. vegna þess, að þau hafa öll verið á döfinni í umræðum í blöðunum, og einnig verða að heyra hjer undir ráðningar manna í þjónustu landsstjórnarinnar hjer á landi, — ekkert af þessu verður skilið undan þeim verslunarframkvæmdum og ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, og skylda nefndarinnar er að taka þetta frá sem flestum hliðum, til þess að komast á öruggan grundvöll, — og ber þá að því að gæta, að öll þessi mál hafa orðið að vera sameinuð í höndum landsstjórnarinnar, eins og málum var skipað í öndverðu, þegar farið var að taka þetta til meðferðar af þingi og stjórn þegar í ófriðarbyrjun.

Jeg býst ekki við, að ágreiningur verði í þessari háttv. deild um þessi grundvallaratriði till, og býst ekki við, að hjer komi fram út af þessari till. neinn vottur um nokkra fyrirmálstaugaveiklun, eins og átti sjer stað hjer í deildinni fyrir skömmu, er rætt var um aðra till., því að niðurstaðan á slíkri rannsókn getur ekki verið öðruvísi en til hagsmuna fyrir alla. (B. J : Hvað nefndi háttv. þm., og hvað á hann við?). Jeg nefndi það fyrirmálstaugaveiklun, en till , sem jeg átti við, var til umr. á síðasta fundi, og var um að athuga fjárhagsástand landsins. Jeg skal að gefnu tilefni geta þess, að það kom ekki fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, sem mjer sýnist fara að ókyrrast.

Hjer er komin fram brtt. við þessa till, á þgskj. 25, sem vill gera þá breytingu, að skipa ekki sjerstaka nefnd til þess að athuga þetta mál, heldur fela það bjargráðanefnd; að öðru leyti legg jeg alveg sömu merkingu í þessa till. Mjer virðist nú, að best sje að fara varlega í að blanda alt of miklu saman við það, sem bjargráðanefnd hefir fengið og á að gera; mörgum virðist líka, sem bjargráðanefnd muni eiga að hafa talsvert að starfa, þar sem hún á að bera á herðum sjerstaka umönnun fyrir því, sem gera beri til þess að halda lífinu í þjóðinni framvegis, á meðan þetta ástand ríkir. Það var af þeim sökum, að oss, sem þessa till. berum fram, þótti ekki rjett að fara aðra leið en þá, að sjerstök nefnd yrði skipuð til að athuga þessi mál, svo og af því, að hjer á þingi er mjög misjafnt skipað niður störfum; sumar nefndir hafa mikið að gera, en sumar ekkert. Það væri því alveg óráð að demba öllum þeim málum, sem ætla mætti að þyrfti mest vinnubrögð við, í þá nefnd, sem líklegast væri að mest hefði að starfa á þessu þingi. Það er ekki nema eðlilegt, að menn vilji skifta sem mest störfunum, til þess að koma einhverju áfram. Jeg býst því við, að jeg og fleiri verði á móti því, að þessi málefni verði falin bjargráðanefnd, og leggjum áherslu á, að hjer þurfi sjerstaka nefnd, ef vel á að vera.

Þá hefir komið fram brtt. við þessa áminstu brtt, sem fer í þá átt, að ef málið fari ekki í sjerstaka nefnd, þá sje því ekki vísað til þeirrar nefndar hjer í deildinni, sem á að annast um oss í framtíðinni, bjargráðanefndarinnar, heldur til fjárhagsnefndar, og það er víst um það, að fjárhagsnefnd kemur ekki til að hafa að sama skapi jafnmikið starf og bjargráðanefnd. Fyrir þá sök tel jeg það heppilegra, ef málið verður ekki falið sjerstakri nefnd, sem jeg þó teldi heppilegast, — að það fari þá ekki til bjargráðanefndar, heldur til fjárhagsnefndar — og bjargráðanefndin sje þannig losuð við þau störf, sem ekki hljóta beint að heyra undir hana. Jeg og fleiri munum því haga oss þannig gagnvart þessu atriði, að fylgja því heldur, að þetta mál fari í fjárhagsnefnd, en munum svo greiða atkv. móti aðalbrtt., að það fari í fastanefnd, en að skipuð verði sjerstök nefnd.

Jeg ætla nú ekki að fjölyrða meira um málið að sinni, en vil bíða undirtekta manna og gera þá athugasemd, ef mjer þykir þess þurfa.