21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

36. mál, stimpilgjald

Framsm. (Magnús Guðmundsson):

Mjer skildist á háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), að hann gæti ekki sætt sig við 6. gr., um stimplun rjettarskjala. Áleit hann, að þeir, sem fara í mál, yrðu fullhart úti fyrir því, þótt ekki þyrftu þeir að greiða stimpilgjald af málsskjölum. Það kann vel að vera, að þetta þyki hart. En skattarnir verða einhversstaðar að koma niður, og rjettarskjöl eru ekkert ver fallin til þess að greiða af þeim stimpilgjald en hver önnur skjöl. Viða í öðrum löndum eru miklu fleiri rjettarskjöl en um ræðir í 6. gr. f. stimpluð, og ef svo er, að sá, sem í mál hefir farið, hefir góðan málstað, á hann samkvæmt lögum um málskostnað frá síðasta þingi að fá endurborgaðan málskostnaðinn hjá mótpartinum, þar með talið stimpilgjaldið. Þeim, sem aftur á móti hefir farið í mál, eða látið fara í mál við sig að ástæðulausu, er eigi vorkunn að greiða þetta gjald. Aðalatriðið er, að eigi má hjá líða að útvega landssjóði tekjur, og er eins og háttv. þm., sumum hverjum að minsta kosti, gangi nokkuð erfitt að skilja það.

Það er ekki með rjettu hægt að hafa það á móti þessu frv., að ekki eru öll skjöl gerð stimpilskyld, því að það gerir þá þeim mun minna ilt. Ástæðan til þess, að ekki eru nú gerð stimpilskyld fleiri skjöl, er sú, að meiningin er, að engin önnur skjöl sjeu stimpilskyld en þau, sem afgreidd eru af embættismönnum eða bönkum eða öðrum lánsstofnunum. Þetta er gert vegna eftirlitsins og til þess, að lögin verði eigi pappírsgagn að meira eða minna leyti. Síðar meir má ef til vill bæta við fleiri skjölum, ef lög þessi reynast vel, en rjettast er að fara varlega í byrjun og prófa sig áfram.

Nefndin hefir enga dul á það dregið, að stimpilgjald af farmskírteinum er útflutningstollur, og hún hefir fallist á þann útflutningstoll að eins til bráðabirgða, til þess að afla tekna, en hún er mótfallin útflutningstollum yfirleitt. Það er undarlegt, að sumir háttv. þm. eru að tala um, að stimpilgjaldið af farmskírteinum sje grímuklætt útflutningsgjald, þótt það hafi frá upphafi verið tekið fram, að gjaldið er útflutningsgjald, og hefir aldrei verið dregin nein gríma á það. Jeg vona, að háttv. Ed. sjái, hvað við liggur, og fari ekki eins að ráði sínu eins og í fyrra. Þótt ýmsa agnúa megi finna á frv., þá teldi jeg samt mjög misráðið að fella það.