26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi ásamt þrem öðrum deildarmönnum leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 25. Breyting sú, sem við leggjum til, er ekki önnur en það, að málinu verði, í stað þess að setja það í sjerstaka nefnd, vísað til bjargráðanefndar, og henni þá ekki að eins falið að rannsaka það, eins og aðaltill. gerir ráð fyrir, heldur líka að leggja það fyrir háttv. þingdeild, svo að þm. ættu kost á að fara nokkru fróðari en þeir komu.

Jeg segi þetta vegna þess, að í fyrra var háttv. þm. ekki svo fyllilega ljós niðurstaða bjargráðanefndar í ýmsum bjargráðum, sem æskilegt hefði verið, og voru þess vegna spurðir í þaula, þegar út í sveitirnar kom. Jeg ætla ekki að bera brigður á það, sem háttv. flm. (G. Sv.) sagði um nauðsynina á þessari rannsókn; það er víst öllum ljóst, að hún er alveg sjálfsögð, en að við komum með brtt. í þessu atriði stafar af því, að við vitum, að bjargráðanefnd hefir hvort sem er flest plögg til þessa hlutar, og hefir fengist við þetta að undanförnu, og bestar tilfæringar til að leysa þetta af hendi. En ef skipuð væri sjerstök nefnd, myndi hún í mörgum tilfellum þurfa að bera sig saman við bjargráðanefnd og leita upplýsinga til hennar, svo að nefndin, eins og háttv. flm. (G. Sv.) sagði, hefði að öllum líkindum ekki tök eða tíma til að framkvæma þessa rannsókn. Einmitt af því, eins og jeg sagði áður, ætti bjargráðanefnd að hafa betri tök á að gera þetta, af því að hún hefir fengist við slíka rannsókn áður.

Það, sem háttv. flm. (G. Sv.) talaði um verkefni nefndarinnar, er sjálfsagt flest rjett, en jeg er þó ekki viss um, að undir hennar verkahring heyri ráðning þeirra manna, sem hafa verið sendir til annara landa í ýmsum erindum. Mjer finst það eitt skifta máli, að manninn þurfti að senda, en hitt miklu síður, hvers vegna þessi maður var ráðinn, en ekki hinn, því að um slíkt má altaf deila. En það er að sjálfsögðu rjett, að alt, sem lýtur að verslunarviðskiftum, skipakaupum og skipaleigu, heyrir undir hana, og það girnist almenningur mjög að fá glöggar og ítarlegar skýrslur um, og hefir því meiri þörf á að fá þær, sem frásagnir um þá hluti eru töluvert ýktar og úr lagi færðar. En nú er alt verslunarstarf landssjóðs ekkert annað en bjargráðastarfsemi og á sem slíkt heima hjá bjargráðanefnd.

Það er ef til vill ekki út af eins hátíðlegur blær á því, að fá bjargráðanefnd þetta til meðferðar, eins og að kjósa sjerstaka nefnd, .en af því að bjargráðanefnd vissulega hefir betri föng á þessari rannsókn en nokkur önnur nefnd í þinginu, þá vil jeg eigi láta þann viðhafnarblæ ráða meiru en merg málsins.

Jeg hefi nú nefnt ástæður vorar fyrir þessari brtt, en um brtt. við brtt., á þgskj. 26, verð jeg að segja, að mjer kemur það undarlega fyrir sjónir, að háttv. flm. hennar (E. A.) skuli leggja það til nú, — sem áður var flm. þeirrar till. — að skipa sjerstaka nefnd. Jeg hefði búist við, að hann hjeldi fast við þá till., og þar sem fjárhagsnefnd hefir miklu lakari skilyrði til þess heldur en bjargráðanefnd, og auk þess að sjálfrar sinnar dómi störfum hlaðin, þá get jeg ekki felt mig við, að hún verði ofan á eða hafi tíma til að leysa starfið viðunanlega af hendi.