26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Matthías Ólafsson:

Mjer var ekki boðið að vera með sem flm. þessarar till., enda hefði jeg ekki orðið það, þótt svo hefði verið. Þetta ber ekki svo að skilja, að jeg hafi nokkuð á móti því, að verslunarástand landsins sje rækilega athugað, heldur álít jeg, að til þess að hægt sje að kveða upp sanngjarnan dóm og á rökum bygðan um jafnviðfangsmikið mál og þetta, þá þurfi lengri tíma en þann, sem vinst á þessu aukaþingi. Jeg tel því mikla hættu á, að dómarnir, sem leiddu af slíkri flausturrannsókn, sem hjer um ræðir, mundu verða bygðir í lausu lofti og lítilli sanngirni.

Það hefir orðið deila um það hjer, hvort allar ráðstafanir stjórnarinnar í verslunarmálum hafi verið heppilegar. Það má vel vera, að svo hafi ekki verið. En hver getur álasað einni verslun fyrir það, þótt hver ein og einasta ráðstöfun hennar sje ekki heppileg? Það getur enginn, sem vit hefir á verslun.

Jeg hefi því, að svo komnu máli, hvorki tilhneigingu til að áfellast eða afsaka stjórnina; en jeg hefi heldur enga tilhneigingu til þess að kveða upp dóm í slíku stórmáli sem þessu, eftir litla og ófullkomna rannsókn.

Það hefir verið talað una það hjer, hvernig á því stæði, að landsverslunin seldi dýrara vörur en t. d. kaupmenn og kaupfjelög. En þá ber þess að gæta um landsverslunina, að henni hefir verið skipað að versla í tíma og ótíma. Það er því ekki nema eðlilegt, að hún hafi oft orðið að sæta verri kjörum heldur en aðrir kaupsýslumenn, sem gátu beðið þess, að tímarnir yrðu hentugir. Auk þess ber þess að gæta, að kaupmenn, sem versla með margar vörur, geta unnið það upp á annari, sem þeir tapa á hinni, en þessu er ekki að heilsa um landsverslunina, sem að mestu verslar með eina vörutegund, sem sje matvöru.

Þetta þyrfti alt að rannsaka, ef kveða ætti upp rjettlátan dóm um þá verslun, en eins og fyr greinir, álít jeg, að ekki vinnist tími til svo nákvæmrar rannsóknar á þessu þingi.

Með þessum orðum er jeg ekki að halda hlífiskildi fyrir stjórninni, heldur er jeg að eins að sýna fram á, að slíka rannsókn, sem hjer er um að ræða, tel jeg með öllu svo ófullkomna, að ekki beri að hleypa henni af stokkunum. Sú niðurstaða, sem hún kemst að, verður altaf ófullkomin, og jeg vil ekki vera með í því að fella flaustursfullan dóm í slíku stórmáli og þessu.

En ef nú háttv. deild kemst að þeirri niðurstöðu, að rjett muni vera að hefja rannsóknina þegar á þessu þingi, þá er sjálfsagt, að sjerstök nefnd verði skipuð, því að nóg mun starf hennar verða, þótt hún hafi ekki meira en þetta eina mál með höndum.

Rjettast væri á þessu stigi málsins að taka það nú þegar út af dagskrá, svo að menn í kyrð og næði gætu ráðið ráðum sínum um það, hvaða mönnum sje rjett að fela slíkt vandamál og þetta. Það segir sig sjálft, að þeir menn þurfa að vera sjerstaklega góðir og starfshæfir. (E. A.: Eru ekki allir þingmenn góðir og starfshæfir?). Það hefir enginn sagt annað.

Mín tillaga er því sú, að málið sje nú þegar tekið út af dagskrá, en á sínum tíma verði svo skipuð sjerstök nefnd til þess að athuga það.