26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Virtist háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) taka illa upp orð háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) um að velja góða og starfshæfa menn í nefndina. En jeg vil benda á, að sumir þm., sem gott skyn bera á fjármál og væru því vel til starfans fallnir, hljóta að falla frá, ef til nefndarkosningar kemur. Á jeg hjer við menn eins og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.). (E. A.:

Er ekki mikið úrval samt?). Er það ætlun mín, að þeir mundu hafa getað látið eitthvað gott af sjer leiða, ef þeir hefðu getað lagt til sína þekkingu, en nú eru þeir ekki hlutlausir, því að þeirra gerðir í verslunarmálunum þarf engu síður að rannsaka en gerðir þeirrar stjórnar, sem nú situr við stjórnvölinn.

Hvað sjerstakri nefnd viðvíkur, þá er það ekki alveg eins vist og mönnum virðist, að hún muni ljetta miklu verki af bjargráðanefnd eða fjárhagsnefnd, því að jeg býst við, að nokkuð sömu mennirnir og eru í hinum tveimur nefndum mundu lenda í hinni nýju, og mundi þá koma nokkuð í sama stað niður, hvort ný nefnd væri kosin, eða málinu vísað til einhverrar þeirrar nefndar, sem fyrir er.

Hvað fjárhagsnefndina snertir, þá hefir hún þegar nokkuð mikið starf með höndum, þar sem henni ber að rannsaka fjárhag landsins allan. Virðist því vart vera hjer við bætandi, enda man jeg ekki betur en að háttv. deild hafi í fyrradag gert þeirri nefnd þann grikk, að skella á hana þingsályktun, til þess að minna hana á skyldu sína.

Allsherjarnefnd er útilokuð, þar eð formaður hennar er fyrverandi ráðherra.

Enn er auðvitað ein nefnd til, sem er lausanefnd, og það er bjargráðanefnd. (E. A.: Björn Kristjánsson á sæti í henni). Það er þó munur á því, eða að vera formaður í aðalgrautarpotti þingsins. Það skiftir líka litlu máli, þótt í bjargráðanefnd sje einn maður, sem áður hefir átt sæti í stjórninni, því að hans rödd mun ekki heyrast þar, þar eð hann yrði í minni hluta.

Margt er það annað, sem mælir með að vísa málinu til fjárhagsnefndar. Þar er fyrsti flutnm. till. (G. Sv.), og annar flutnm. hennar (M. G.) er formaður nefndarinnar, og vita allir, hversu ant hann lætur sjer um búskap landsins allan. Mundi því enginn vafi á því, að málinu yrði vel borgið í höndum þessarar nefndar.

Þar sem menn berja því við, að nefndin hafi nægilega mikið að gera við að bjarga landinu við í framtíðinni, þá er mjer spurn, hvort hún muni vilja byggja athuganir sínar um framtíðina í lausu lofti? Mundi hún ekki vilja læra af fráförnum ráðherrum og núverandi stjórn? Mundi hún ekki vilja vita, hvort stjórnirnar hafa keypt skip og vörur okurverði og sjer í óhag? Þetta alt er bjargráðanefndinni nauðsynlegt að vita, áður en hún gerir tillögur um framtíðina. Jeg hygg nú raunar, að tillögulaust hefði hún athugað alt þetta, því að það blasir beint við, að þetta er skylda hennar. Þess vegna á málið ekki að fara í neina aðra nefnd en í bjargráðanefnd. Þetta er hennar skylda, eins og það er skylda fjárhagsnefndar að athuga fjárhaginn.

Hvað því viðvíkur, að starf nefndarinnar muni ljetta undir með endurskoðun landsreikninganna síðar meir, þá er jeg trúlaus á það. Stjórnin hefir sjeð fyrir því, að fastir endurskoðendur hafa verið skipaðir við landsverslunina, og eru það ekki heimskari menn en þeir dr. Ólafur Daníelsson og Þórður Bjarnason.

Mun endurskoðuninni vel borgið í þeirra höndum, og munu þeir síst ver gera en nefndin, sem að eins hefir örstuttan tíma til verksins.

Enginn skilji svo orð mín, að jeg sje að verja stjórnina, enda gerist hvorki þörf varnar nje sóknar að svo komnu máli.

Læt jeg svo orðum mínum lokið með þessu, að ef nauðsynlegt er að koma með þessa tillögu, þá á að vísa málinu til bjargráðanefndar.