26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1477)

18. mál, verslunarframkvæmdir

1477Einar Jónsson:

Mjer finst ekki vera nema um tvær spurningar að ræða í sambandi við þetta mál. önnur er sú, hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi verið trúað, er hann flutti ræðu sína um fjárhag landsins, og hin er sú, hvort tími muni fyrir hendi til þess að rannsaka alt þetta mál á þessu þingi, ef nefndin, sem hjer er um að ræða, verður skipuð. Jeg get nú ekki álitið annað en að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið trúað, en get hins vegar ekki sjeð, að nægilegur tími muni vinnast fyrir nefndina til starfa. En þótt svo yrði nú ekki, þá er ekki þar með fyrir að synja, að nefnd þessi gæti gert mikið gagn og brugðið ljósi yfir ýmislegt, sem stjórnin hefir haft með höndum og mönnum er enn ekki nægilega ljóst. Jeg get því lýst yfir því, að jeg er alls ekki á móti því, að nefndin verði skipuð.

Mig furðar ekki, þó að háttv. þm. Dala. (B. J.) talaði af sjer, þar sem hann sagði, að enginn, sem áður hefði verið ráðherra, mætti eiga sæti í slíkum nefndum sem þessi væri. Þá ætti hann að vita, að í bjargráðanefnd er fyrverandi ráðherra, háttv. þm. G.-K. (B. K).

Hvað hviksögur þær snertir, sem hv. þm. Dala. (B. J.) segist hafa heyrt um landsverslunina, þá finst mjer ekki svo mjög eftir þeim hlaupandi; hann mætti vita, að hviksögur ganga einatt um hann sjálfan, og má vel vera, að hann eigi það líka mest skilið af öllum þm. Jeg tek það fram, að í þessari þingsál.till. felst ekkert vantraust til stjórnarinnar, og bið alla að skilja það ekki svo, þó að jeg vilji nefndina kosna.