26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki sjeð neina ástæðu fyrir stjórnina til að hafa á móti þessari nefnd. 1915 var svipuð nefnd kosin, en þá var hún að vísu ástæðulaus, en fordæmið er til og nú meiri ástæða en þá, þar sem störf landsverslunarinnar eru orðin svo margfalt margbrotnari en þá. Að vísu hygg jeg að sú rannsókn, sem hjer á að fara fram, geti tæpast orðið þannig, að mikið verði hægt á henni að byggja, en ef það er sama, vilji þingið kjósa nefndina, því þá ekki að gera það? Nú býst jeg við, að allir nefndarmenn komist ekki að sömu niðurstöðu, og verður þá efi eftir sem áður um það, hversu vel stjórninni hafi tekist starf sitt.

Hvað það snertir, að málið fari í sjerstaka nefnd eða ekki, þá finst mjer það ekki skifta svo miklu máli. Í sjálfu sjer er eðlilegast, að málið fari í bjargráðanefnd, en jeg hygg, að fjárhagsnefnd muni hafa einna mest að gera hjer á þingi. En hvers vegna ekki að benda á fjárveitinganefnd, sem skipuð er 7 mönnum, eða samgöngumálanefnd, sem hvorug hefir mjög mikið að gera? Önnurhvor sú nefnd ætti að fá þetta starf í hendur, þar sem hinar báðar munu hafa nægilegt að gera.