24.04.1918
Neðri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

19. mál, fjárhagsástand landsins

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Oss flutningsmönnum þessarar till. þótti sem þess væri full þörf, að fjárhagsmál landsins væru á þessu þingi — þótt aukaþing sje — athuguð með meiri nákvæmni en venja er til á aukaþingum. Hygg jeg, að háttv. deild geti verið oss samdóma um það, að á þessu sje full nauðsyn, þegar þess er gætt, hvernig síðasta þing skildi við fjárlögin, og einnig er lítið á hitt, hvernig árferði hefir verið upp á síðkastið og er enn í fjármálaefnum og atvinnuvegum, sem afleiðing af því alheimsböli, er nú gengur yfir heiminn. Þá má það og öllum þingheimi kunnugt vera, að kjósendur víðs vegar úti um land bíða þess með óþreyju að fá sem best og glegst yfirlit yfir fjárhag landsins nú á þessu aukaþingi.

Síðasta þing skildi við fjárlögin með ca. 800 þús. kr. tekjuhalla, auk ýmsra útgjalda í sjerstökum lögum og þingsályktunum, sem ekki voru tekin upp í fjárlögin. Jeg lít nú svo á, sem margir fleiri, að allmikið hafi brostið á, að síðasta þing skildist við fjárhag landsins með fullri forsjá og fyrirhyggju. Að vísu hefir reyndin oftast orðið sú, síðan vjer fengutn fult fjárforræði, að betur hefir ræst úr um áætlaðar tekjur í fjárlögunum en menn hafa gert sjer í hugarlund, tekjur og gjöld staðist á, eða tekjuafgangur orðið, þótt gjöldin hafi jafnan farið fram úr áætlun. En nú er alt öðru máli að gegna, enda hefir reynslan sýnt það síðan á síðasta þingi. Það, sem af er fyrra fjárhagsárinu, hefir reynslan orðið sú, að tekjurnar hafa langt frá hrokkið til að vega móti gjöldunum.

Þetta er líka eðlilegt, þegar litið er á. hvernig tekjulindum vorum er báttað. Tekjur vorar eru mestmegnis skattar, beinir og óbeinir. En óbeinu skattarnir hljóta skiljanlega að taka heima, þegar bæði atvinnuvegir og verslun verða fyrir áföllum. Af yfirliti því yfir fjárhag landsins, er hæstv. fjármálaráðherra gaf deildinni fyrir skemstu, er það ljóst, að það tímabil, sem liðið er af fjárhagsárinu 1918, endar með ca. 1½ milj. kr. tekjuhalla. Þetta væri nú ekki svo óttalegt út af fyrir sig, ef útlit væri fyrir, að næsta ár yrði tekjumeira og útgjaldaminna en síðastliðið ár. En svo er ekki, heldur er einmitt útlit fyrir, að tekjuhallinn vaxi sem snjóskriða í bröttu fjalli. Fjárhagur vor í framtíðinni er því alls ekki glæsilegur, þegar á alt er litið

Skuldir landsins skifta nú þegar tugum miljóna. Hafa þær verið stofnaðar síðastliðið ár, síðan böl heimsstyrjaldarinnar tók að ná til vor, og má segja um mörg þau lán, að þau voru tekin í sjálfsögðum bjargráðatilgangi. En hjer er og sú bót í máli, að þessar miljónir eru enn ekki nema að örlitlum parti orðnar að eyðslufje. Eftir skýrslu hæstv. fjármálaráðh. eru, ef jeg man rjett, 150 þús. kr. orðnar eyðslufje, og undir núverandi ástandi má það ekki ofbjóða neinum. Annars standa þessar miljónir í verslun landsins, skipum, húsum, verslunartækjum o. fl. lánum og öðrum upphæðum. Og þegar þessa er gætt, er stofnun þessara lána sjálfsagt bjargráð, og ekkert við það að athuga, þótt auðvitað verði að gefa því nákvæman gaum. En út af fyrir sig eru þessar miljónaskuldir minni hræðslugæði en sívaxandi tekjuhalli í fjárlögunum. Jeg sje ekki betur en að þá standi hreinn fjárhagsvoði fyrir dyrum, ef tekjuhallinn vex ár frá ári án þess nokkuð sje aðhafst. Og sá fjárhagsvoði verður enn meiri ef slíkur tekjuhalli vex nú, þar sem enn má búast við, að gjaldþolið fari síminkandi, af óviðráðanlegum ástæðum.

Það þarf nokkurt hugrekki til að horfast í augu við þá döpru mynd, sem framtíðin bregður upp fyrir oss. En ekki dugir annað en að horfast í augu við hana og leita sjer ráða, svo að þessi voði verði ekki lands og lýða tjón. Er því ekki nóg að hrista höfuðið yfir hinum háu tölum í tekjuhallaregistri landsins, en greiða svo atkvæði með hverjum gjaldauka, hvort sem hann er nauðsynlegur eða ekki. Nú er þess hin fylsta þörf að vera dyggilega á verði og sjá við þeirri hættu, að landið, fyrir ljettúð og handvömm vora, þjóðfulltrúanna, sökkvi í óbotnandi skuldir, því að ef svo færi, þá megum vjer vel vita, að sjálfsforræði getur verið hætta búin.

Vera má, að sumir telji þessa ræðu mína ekki snerta till. beinlínis, þá er liggur fyrir, en jeg vil þó segja, að hún snerti hana að ýmsu leyti. Jeg verð að álíta, að ein af sjálfsögðustu bjargráðatilraunum þingsins verði að vera sú, að athuga tölurnar í búreikningi landsins, ekki með ógn, ofboði og hryllingi, heldur athuga öll útgjöldin, ástæðurnar til þeirra og hlutföllin milli upphæðar þeirrar og þess gagns, er þjóðin hefir haft af þeim. Þetta tel jeg brýna skyldu þingsins og ljett verk. En sje það ekki unnið, mun þingið hljóta ámæli mikils hluta þjóðarinnar, því að það er áreiðanlega vist, að þeir landsmanna, er hugsa nokkuð um fjárhag landsins, horfa með óró og kvíða fram á ókomna tímann.

Komist menn nú við rannsókn þessa að þeirri niðurstöðu, að þessar tölur sýni óhjákvæmileg útgjöld, sem landinu sje og hafi verið verulegur stuðningur að í þeirri ströngu baráttu, sem það verður nú að heyja fyrir tilveru sinni, þá tel jeg vel farið. Og þá tel jeg, að þessi rannsókn hafi orðið til þess að drepa niður þeim mörgu hviksögum og getgátum, er gengið hafa fjöllunum hærra um allar sveitir þessa lands, um ráðlauslega meðferð á fje landsins. Verði þessi niðurstaðan, mega bæði landsstjórn og landsmenn láta sjer vel líka. En komi það aftur í ljós, að mistökin í meðferð landsfjárins hafi verið meiri en við mátti búast — því að altaf má búast við þeim nokkrum —, þá getur það orðið til þess, að þing og stjórn láti sjer þessi viti að varnaði verða framvegis.

Jeg vil geta þess, að þessi till. er ekki fram komin fyrir þá sök, að vjer flutningsmenn vantreystum háttv. fjárhagsnefnd, eða gerum ráð fyrir, að hún myndi ekki hafa athugað þetta mál ótilkvödd, heldur vildum vjer með þessari till. túlka fyrst og fremst vilja meiri hluta háttv. deildar, sem jeg veit að samþykkir till., og enn fremur, að hjer kæmi fram skýrt og ótvírætt vilji meiri hluta almennings, sem, eins og jeg drap á áðan, hefir aldrei sem nú krafist þess að fá yfirlit yfir fjárhag landsins, bæði í stórum dráttum og einstökum atriðum.

Þess vegna tókum vjer upp þessa leið, til þess að gefa till. meiri kraft, svo að það sæist, að þingið vildi nú, fremur en endranær, snúa sjer að þessu atriði, að gefa þjóðinni sem glegst og greinilegast yfirlit yfir fjárhaginn og horfurnar.

Og það vil jeg taka fram að endingu, sem jeg vona, að allir hugsandi menn, og þá ekki síst fulltrúar þjóðarinnar, sjeu mjer samdóma um, að fjárhagshorfur og bjargráða sjeu nú þannig yfirleitt, að aldrei hafi verið meiri nauðsyn en nú að beita fylstu varkárni um að auka útgjöldin, og það svo, að vísa beri frá þinginu hjer um bil undantekningarlaust öllum þeim útgjöldum, er ekki horfa beint til bjargráða á þessari skelfingatíð.

Og jeg skal bæta því við, að sem þingmaður vil jeg að þessu sinni treysta á fremsta hlunn með sannfæringu mína, til þess að taka vel þeim tekjuaukafrv., sem að líkindum koma frá hæstv. stjórn.