24.04.1918
Neðri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

19. mál, fjárhagsástand landsins

Fjármálaráðherra (S. E):

Jeg skal fyrst víkja að því, sem háttv. flm. till. (S. St.) lagði áherslu á, nefnilega, að hætta væri á ferðum fyrir landið, ef lánsfjeð væri tekið til að fylla upp í tekjuhallaskörðin.

Jeg vjek að þessu í yfirlitsræðu minni um daginn, og taldi þá upp nokkuð á aðra miljón króna, sem orðið gæti halli á þessu ári, og enn fremur ljet jeg þess getið, að tekjurnar myndu áreiðanlega verða undir áætlun. Alt þetta bendir í þá átt, að nauðsyn sje á að sjá fyrir tekjuauka á þessu þingi. Jeg gat þess þá, að von væri á frv. í þá átt, og vænti jeg, að eitt komi eftir 2 daga. Það gladdi mig mjög að heyra áhuga hans (S. St.) og þá áherslu, er hann lagði á það, að þau væru flutt og þeim vel tekið.

Að öðru leyti skal jeg taka það fram um till., að jeg bjóst altaf við því og taldi það sjálfsagt, að háttv. fjárhagsnefnd gegndi þeirri skyldu sinni, að rannsaka fjárhag landsins sem best. Jeg skal þegar lýsa yfir því, að stjórninni er það hin mesta ánægja að gefa fjárhagsnefnd allar mögulegar upplýsingar og leiðbeiningar.

Háttv. flm. (S, St.) mintist á hviksögur, sem myndast hefðu um ýmsar fjármálaráðstafanir stjórnarinnar. Það er alveg rjett hjá honum, að það væri mjög heppilegt, að fjárhagsnefnd tæki þau atriði til mjög svo nákvæmrar rannsóknar. Engum mun það þakklátara verk en stjórninni, því að hún óskar þess að leggja öll sín plögg á borðið, svo að þjóð og þingheimur megi kynna sjer þau.

Jeg vil endurtaka það, að stjórninni er það óblandin ánægja að veita háttv. fjárhagsnefnd allar þær upplýsingar, sem unt er í þessu máli. Og hún væntir og óskar sem bestrar samvinnu við fjárhagsnefndina um tekjuaukafrv. þau, er hún mun leggja fram.

Það verður erfitt að finna tekjuauka, en hjer þarf svo mikils við, að ekki dugir að kveinka sjer, þótt einhverjum sje nær höggið, og því að eins er fjárhag landsins borgið, að tekjuauki fáist.

Aftur er ekkert athugavert, þótt miljónalán sjeu tekin, til þess að hrinda áfram verslun landsins og skipakosti. Það er þjóðinni lífsnauðsyn, hrein og bein bjargráð. Það mun sýna sig enn betur síðar, að þær ráðstafanir, er gerðar voru á þinginu 1916—17, að heimila stjórninni fje til skipakaupa, hafa verið hinar þörfustu, og þing og stjórn mun aldrei þurfa að iðrast þess, að sá var upp tekinn.