21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það var að eins örstutt athugasemd, sem jeg ætlaði að gera út af orðum háttv. 2. þm. Arn. (E. A.) um „konnosse-mentin“. Jeg get vísað til þess, sem jeg sagði við 1. umr. málsins. Þetta er að eins gert í bili, til þess að afla fje á þessum tímum, þótt ýmislegt sje við „principið“ að athuga. Margt verður að víkja fyrir þörfinni, og skal jeg svo ekki fara inn á fleira um þetta atriði. Það er ekki ástæða til að tala frekar um það hjer. Málið er nú til 3. umr., og engin brtt. hefir fram komið um þetta atriði, svo að nú er það of seint.

Jeg sje ekki, að neitt misrjetti eða þungar búsifjar sjeu veittar þeim, sem þurfa að fara með skjöl sín fyrir rjett. Þessar búsifjar eru þyngri annarsstaðar, eins og bent hefir verið á, þar sem líka þarf að borga stimpilgjald af skjölum, sem ekki koma fyrir rjett.

Þá gerði sami háttv. þm. (E. A.) athugasemd um víxla, sem ekki eru seldir í banka. Það er auðsjeð, hvers vegna þeir víxlar eru ekki gerðir stimpilskyldir — það gerir „kontrollið“. Það er svo erfitt að fást við alla skattalöggjöf hjá okkur, sökum þess, að hjer vantar alt „kontroll“, sem er miklu fullkomnara annarsstaðar. Þetta kemur t. d. í ljós í vörutollslögunum. Þar er vörunum svo óheppilega skift í flokkana, af því að menn urðu að hafa þær vörutegundir saman í flokk, sem flytjast í svipuðum umbúðum, vegna þess, að okkur vantar alveg tollgæslu.

Sami háttv. þm. (E. A) drap á, að ekki mundi muna mikið um þennan tekjuauka.

Jeg get auðvitað ekki sagt með vissu, hve mikill hann kynni að veiða. En það raun engin fjarstæða að gera sjer vonir um, að hann geti orðið alt að 800.000 kr. á fjárhagstímabili, og mjer kæmi ekki á óvart, þótt hann yrði jafnvel meiri. Jeg verð að segja það, að landssjóð munar um minna.

Jeg vona því, að málið gangi eins greitt út úr þessari háttv. deild eins og það hefir gengið hingað til, og eins vona jeg, að háttv. Ed. verði því ekki að fótakefli.