24.04.1918
Neðri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

19. mál, fjárhagsástand landsins

Bjarni Jónsson:

Jeg vil að eins gera þá stuttu athugasemd, að jeg taldi það ekki ráð að láta eins og fjárglæframenn. Jeg held, að það hafi enginn getað fengið út úr ræðu minni, að landið þyrfti að auka lánstraust sitt með þeirri aðferð.

En það er annað, sem hjer kemur til. Jeg vil ekki, að verið sje að hrópa í eyru manna, jafnt útlendra sem innlendra: Nú er fallega í pottinn búið á Íslandi, nú er alt í voða! Og það jafnvel þótt hagur landsins standi með miklum blóma, með meiri blóma en nokkurs lands, sem stendur í öngþveiti styrjaldarinnar. Það er það, sem enginn maður má gera. Erlendir menn, sem heyra, að slík till. hafi komið fram á þingi Íslendinga, spyrja að eins um, hvort hún hafi verið samþ, og heyri þeir, að svo hafi verið, þá finst þeim það sjálfsagt athugavert. Þetta þarf ekki að deila um, því að það Veit hver maður, sem hjer er innan veggja, en vilji einhver neita þessu, þá mun jeg láta hann um það.

Jeg vildi að eins, að farið væri varlega í þeim efnum, sem geta vakið grun um það, að hagur landsins sje verri en hann er í raun og veru, og vil jeg ekki, að neinn gefi það í skyn.