01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1497)

81. mál, launamál

Björn R. Stefánsson:

Jeg tek eigi til máls af áhuga fyrir þessari nefndarkosningu, heldur af því, að jeg leit svo á málið, að ekki yrði hjá því komist, að þingið tæki málaleitanir þessar til greina. Margar þeirra eru á það miklum rökum bygðar, að mjer virtist, að þingið gæti ekki látið undir höfuð leggjast að svara þeim. Mjer þætti heppilegast, að málið yrði látið hverfa undir fjárveitinganefnd. Háttv. frsm. (P. J.) kvaðst vilja kjósa sjerstaka nefnd, af því að fjárveitinganefndin væri ekki kosin með sjerstöku tilliti til þessara mála. En slíkt hið sama mætti segja um fleiri nefndarkosningar. Þegar nefndir eru kosnar í þingbyrjun, vita menn ekki um öll þau mál, sem þeim kunna að verða falin. Annars geri jeg þetta atriði ekki að neinu kappsmáli, en eftir því, sem jeg hefi komist næst, mundi í sjerstaka nefnd aðallega eða eingöngu kosnir menn, sem eru í fjárveitinganefnd, að eins 2 gengju úr, en þessir 2 held jeg að engu spilli, þó að þeir fái um mál þetta að fjalla ásamt hinum. Á því er brtt. mín bygð.