19.04.1918
Efri deild: 5. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

8. mál, sjálfstæðismál landsins

Flm. (Karl Einarsson):

Það þarf ekki að hafa mörg orð til að sýna nauðsynina á því að skipa nefnd þá, sem ræðir hjer um, á þgskj. 8. Á Alþingi 1917 var afgreidd till. til þingsályktunar um að fá löggiltan siglingafána fyrir Ísland. Háttv. deild er það kunnugt, hvernig fór um það mál, er það var borið fram af hæstv. forsætisráðherra fyrir hans hátign konunginum, og má vísa um þetta til þess, sem birt hefir verið af umræðunum í ríkisráði um þetta mál.

En eins og jeg tók fram í ræðu minni, er jeg bar fram frv. til laga um íslenskan farfána á Alþingi 1917, þá er það nú viðurkent í verkinu af Dönum og öðrum þjóðum, að vjer getum á okkar eigin ábyrgð og án íhlutunar annara gert samning um verslun og siglingar við önnur ríki. Hvers vegna Danir geta ekki viðurkent hið sýnilega tákn þessa rjettar vors, farfána vorn, virðist helst vera það, eftir umræðum þeim að dæma, er jeg mintist á áðan, að Danir vilja fá um leið útkljáð alt það, er hingað til hefir borið á milli í sambandi voru við þá. Mjer finst nú ekki vera rjett að verða ekki við þessum óbeinu tilmælum um hreina ákvörðun á sambandinu, og má ekki láta ófreistað að fá vitneskju um það, hvort ekki sje hægt að komast að hreinni niðurstöðu. En það vil jeg taka fram, að þær samningaumleitanir verða að fara fram meðan þetta þing situr, og getur auðvitað ekkert annað samband en hreint persónusamband verið lagt til grundvallar fyrir slíkum samningum.

Vjer erum þannig settir, að mál vor geta ekki að neinu leyti, nema okkur til stórtjóns, verið sameiginleg með nokkurri annari þjóð, og vjer erum svo gæfusamir, að eiga engan her eða flota, og hljótum því ætíð að vera algerlega hlutlausir í styrjöldum veraldarinnar.

Þetta hlýtur að mega fá viðurkenningu fyrir hjá alþjóð.

Eitt vil jeg að eins taka fram, til athugunar fyrir nefnd þá, sem væntanlega verður skipuð af hinu háa Alþingi, og það er það, að aldrei gefst oss annað eins tækifæri og nú til að fá viðurkenningin á sjálfstæði og fullveldi voru, þar sem svo stendur á, að svo að segja allur heimurinn beist nú með þeirri hugsjón aðallega fyrir augum, að þjóðirnar eigi að hafa rjett til að vinna að sínum eigin málum í friði, hversu smáar sem þær eru, eða jafnt þær voldugu og stóru sem þær smáu og fátæku. Og svo er að sjá, að að eins á þessum grundvelli muni komast á friður. En jeg vil ekki draga dulur á það, að einna mest áríðandi fyrir okkur, meðan á ófriðnum stendur, er að fá sem allra fyrst viðurkent hið sýnilega tákn þess, að við erum ekki háðir neinni þjóð, því að enginn veit, hver kann að sogast inn í ófriðarbálið, en slíkt sýnilegt tákn er einmitt siglingafáni vor, og hefir hann því langmesta þýðingu allra vorra mála, eins og nú hagar til. Já, hann hefir jafnvel svo mikla þýðingu, að ef svo ógæfusamlega tækist til, að Danir lentu í ófriði þessum, gæti hann orðið til þess, að á oss yrði litið sem alveg hlutlausa þjóð fyrir því, og jafnvel til að viðhalda sambandi því við Dani, er við eitt viðurkennum, nefnilega konungssambandinu.

Með vilja skal jeg ekki skýra einstök atriði nánar. Að lokum skal jeg óska þess, að þetta háa Alþingi, sem nú situr, geti borið gæfu til að standa sem einn maður í öllu þessu máli, í smáu sem stóru, því að það mun verða því til frægðar og sóma og landi voru til blessunar og heilla, því að að eins á þann hátt getur máli þessu orðið farsællega til lykta ráðið.

Mælist jeg svo til, að háttv. deildarmenn samþ. till. þá um nefndarsetning, sem hjer liggur fyrir.