20.04.1918
Efri deild: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

13. mál, skipun bjargráðanefndar

Magnús Kristjánsson:

Í tilefni af ummælum háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um, að bjargráðanefnd þurfi fyrst og fremst að leggja alt kapp á að viða steinolíu að landinu, svo að sjávarútgerðin stöðvist ekki, skal jeg geta þess, að jeg hygg, að bjargráðanefndin, hversu vel sem í hana verður valið, geti ekki gert frekari nje betri ráðstafanir en þegar hafa verið gerðar, bæði af landsversluninni og af stjórnarráðinu. Það er öllum ljóst, að ef framleiðslan er rekin áfram þrátt fyrir dýrtíðina, þá þarf mikið af þessari vörutegund, og því var það, að landsverslunin ætlaði sjer að fá tvo farma af steinolíu, annan í febrúar en hinn í mars, en að þeir hafa ekki komið stafar af því, að Englendingar og jafnvel Bandaríkjamenn hafa ekki viljað leyfa útflutninginn, það sem af er þessu ári. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning skal jeg enn fremur taka það fram, að jeg býst ekki við, að útflutningsleyfi fáist fyrir steinolíu fyr en sendinefndin hefir lokið starfi sínu og samningar eru komnir á við Englendinga.

Viðvíkjandi hagnýtingu afurða vorra, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) var að tala um, þá fer hún altaf smábatnandi með ári hverju, og ef ætti að hagnýta síldina til innanlandsnotkunar, þá þarf til þess dýrar vörur, eins og nú hagar, nefnilega salt og tunnur, og verður að gæta þessa er um það mál er að ræða.