17.05.1918
Efri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

54. mál, sjóvátrygging

Flm. (Magnús Torfason):

Eins og háttv. deild er kunnugt, þá eru sjó- og stríðsvátryggingar allmikill hluti af flutningskostnaði þeim hinum gífurlega, sem nú legst á allar aðfluttar og útfluttar vörur. Og það er þá líka enginn vafi á því, að þessar tryggingar hafa átt drjúgan þátt í því að hækka vöruverð og farmgjald, eða skapa dýrtíð í landinu, og má óhætt telja þær einhvern óbærilegasta skattinn, sem hvílir á þjóðinni. Það geta menn best sjeð af því, að tryggingarnar hafa komist yfir 20% af farmi og skipi.

Þegar maður athugar það, að helstu nauðsynjavörurnar, sem eru kol, salt og olía, taka upp mest rúmmál í skipinu, verður þessi skattur einmitt dýrastur á þessum nauðsynjavörum eða kemur þyngst niður á þeim. Enda er sagt, að á þeim stutta tíma, sem landsverslunin hefir átt skip, hafi verið varið til vátrygginga fullu verði skipanna sumra eða svo, og það með því dýra verði, sem nú er á skipum.

Jeg álít því, að það sje sjálfsögð skylda þingsins að athuga, hvort nokkur vegur sje til þess að draga úr þessum þunga skatti. Jeg fyrir mitt leyti sje ekki aðra leið vænlegri en að hafa sjálfsvátryggingu, eins og önnur lönd hafa. Ef til vill vex mönnum það nokkuð í augum, en hjer er um margar miljónir að ræða, og fara tryggingarútgjöld fremur vaxandi en minkandi. Og þá er það einmitt spurningin, sem þingið þarf að athuga: Er nokkur vegur til að taka hjer upp sömu aðferð og í öðrum löndum? Mjer er það fyllilega ljóst, að hjer eru margir steinar í götu og margir boðar, sem sigla þarf fyrir áður en ákvörðun verður tekin. En þetta verður að athuga frá rótum, heimta allar skýrslur um vátryggingar landsverslunarinnar og annara, sem skip eiga, og jafnvel að seilast eftir skýrslum frá öðrum löndum.

Jeg veit, að það er mikil ábyrgð, sem þing og stjórn tæki á sig, ef til framkvæmdanna kæmi í þessu máli, en þess ber líka að gæta, að það er mikið í húfi og að öllum líkindum mikið í aðra hönd. Að minsta kosti má hvorki þing nje stjórn láta undir höfuð leggjast að setja sig inn í málið.

Að gefnu tilefni skal jeg geta þess, að þegar till. þessi var lögð fram fyrir háttv. deild, hjeldu margir, að þetta ætti að verða eina árásin á stjórnina, en það er langt frá því, að svo sje. Vitanlega hafa gengið ýmsar Gróusögur um þennan þátt landsverslunarinnar, t. d. sú, að vátryggingargjald hennar hafi átt að vera helmingi hærra en hjá Eimskipafjelagi Íslans á sama tíma. En jeg skil alls ekki, hvernig slíkt hefði átt að geta komið fyrir, þar sem sambandið milli Eimskipafjelags Íslands og landsverslunarinnar hefir jafnan verið svo náið. Enda mundi stjórnin þá hafa skýrt þinginu frá þessu, því að engin stjórn mundi vera svo skyni skroppin að ímynda sjer, að hún gæti leynt öðru eins til lengdar. Jeg lít yfir höfuð svo á, að hjer á þingi sje um meira alvörumál en svo að ræða, að menn geti verið að sinna allskonar þvættingi, sem borist hefir manna á milli um athafnir landsstjórnarinnar, en enginn veit hvað hæft er í, og að oss beri fremur að snúa oss að málunum með framtíðina fyrir augum en fortíðina. Og þetta mál er fyrst og fremst framtíðarinnar mál. Annars skal jeg taka það fram, að síðan nýju forstöðumennirnir tóku við landsversluninni hafa engar sögur heyrst um óheppilegar ráðstafanir í sambandi við vátryggingar landsverslunarinnar.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um málið, en undirstrika að eins, að þetta sje nauðsynjamál, sem verði að athuga rækilega.