10.04.1918
Sameinað þing: 1. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

Rannsókn kjörbréfs

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg býst ekki við, að langar tölur þurfi í máli þessu. Háttv. þm. eru víst þegar búnir að ráða við sig, hvern veg þeir ætla að fara.

Jeg stóð því að eins upp til að svara spurningu þeirri, sem að mjer var beint, hvort jeg teldi nokkurt þingsœti autt. Jeg tel þá spurningu ekki heppilega, því að aðalvandinn, sem hjer er um að ræða, er sá, hvort skýra eigi ákvæði stjórnarskrárinnar með lögjöfnun eða ályktun „e contrario“. Og jeg tel það sönnu næst að viðhafa hjer lögjöfnun, enda hefir háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) skýrt það svo ljóslega, að skiljanlegt mun vera flestum, þótt ólöglærðir sjeu.

En hitt er öllum kunnugt, að löglœrðir menn deila um margt, og eitt þykir rjett í dag og annað á morgun. Jeg veit það, að háttv. þm. Dala. (B. J.) er vel að sjer í lögum, en í skýringum sínum er hann talsvert gamaldags og miklu ófrjálslyndari en nú tíðkast meðal lögfræðinga.

Jeg minnist þess ekki, heldur en háttv. frsm. minni hl. (P. J.), að skýring háttv. frsm. meiri hl. (B. J.) á ákvæði þessu hafi komið fram í stjórnarskrárnefndinni, er um þetta fjallaði á. sínum tíma. Jeg var einnig í þeirri nefnd og get borið um það, að þetta atriði kom aldrei til umræðu á þann hátt, að stutt gæti skýring hvors hluta kjördeildarinnar sem er, en það er ekki heldur neitt aðalatriði.