23.05.1918
Efri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi í háttv. Nd. skýrt frá fjárhag landsins, og sje því ekki ástæðu til að gera það aftur hjer, með því að margir úr þessari háttv. deild hlýddu á þá ræðu mína, og auk þess hefir hún komið út á prenti.

Þá gerði jeg grein fyrir þeim miljónum, sem teknar hafa verið að láni, og benti á, að meðan þær væru í arðvænlegum fyrirtækjum, svo sem landsversluninni og skipakosti landsins, þá væri ekki mikið að óttast. En jeg sýndi jafnframt fram á, að talsverður tekjuhalli mundi verða á árinu 1918. Í greinargerð þeirri, sem prentuð var með frv., er sýnt fram á, að til útgjalda komi fram yfir áætlaða fjárhagsliði:

1. Tekjuhalli samkv. fjárlögum h. u. b. kr. 400.000

2. Dýrtíðaruppbót embættismanna h. u. b. kr. 400.000

3. Verði dýrtíðarfrv. stjórnarinnar samþ., h. u. b. kr. 350.000

kr. 1.150.000

en hjer eru að eins nefndir nokkrir liðir, en vitanlega verður hallinn meiri en þetta.

Það er sýnilegt, að útgjaldahallinn árið 1918 getur orðið alt að 2 miljónum eða meira, og fjárhagsnefnd háttv. Nd., sem líka hefir reynt að rannsaka það, hefir komist að svipaðri niðurstöðu. Jeg tek þetta fram til þess að sýna, að rjettmætt sje, að tekjuaukafrumvörp sjeu lögð fyrir Alþingi, því að engan mun langa til að brúka lánin í beint eyðslufje. Síðasta þing hafði mál þetta til meðferðar; var það þá samþ. í hv. Nd., en hv. Ed. vísaði því til stjórnarinnar. En síðan hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frv.; aðalbreytingar eru, að stimpilgjaldið hefir verið hækkað; svo er bæði um 4. og 5. gr. frv., en auk þess hefir verið aukið inn í frv. nýju ákvæði um stimpilgjald af farmskrám.

Jeg vil taka það fram um þennan nýja lið, að jeg tel þann skatt ekki vera rjetttlátan, og jeg játa það, að jeg er í „principinu“ mótfallinn skatti á framleiðslu landsins, en nú er brýn nauðsyn fyrir hendi, og þegar velja verður milli brýnnar nauðsynjar og „principa“, þá verða „principin“ að víkja. En sjálfsagt tel jeg, að þessi skattur verði að eins til bráðabirgða, en nú er erfitt að finna aðra tekjustofna fyrir landssjóðinn.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að óska þess, að fjárhagsnefnd deildarinnar verði falið frv. til athugunar, að þessari umr. lokinni.