06.07.1918
Sameinað þing: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

Þingfararkaupsnefnd

Magnús Torfason:

Jeg kemst ekki hjá því að svara háttv. þm. Ak. (M. K.) fáeinum orðum.

Jeg hafði ekki hugmynd um, að hv. þm. (M. K.) þyrfti sjerstaklega að taka þetta til sín. Jeg fann ekki að skipinu í sjálfu sjer, heldur að aðbúnaðinum. Jeg vil t. d. benda á það, að enginn ofn var í skipinu, er það fór frá Reykjavík. Hann var fyrst settur í skipið í Stykkishólmi, og jeg get bætt því við, að hann var ekki múraður niður fyr en á Ísafirði. Það getur vel verið, að þetta hafi verið gert að ráðstöfun landsverslverslunarinnar. Nú vildi svo til um ofninn, að hann rauk, og var þá annaðhvort fyrir okkur, að drepast úr kulda, eða láta svæla okkur sem melrakka í greni. Kusum við, sem synir lands vors, fyrri kostinn, vildum heldur kveljast í kulda en reyk.

Jeg skal líka taka það fram, að skipið var seglfestulaust, og þegar það reyndist ófært af þeirri ástæðu, þá var það með mestu herkjum og eftirgangsmunum, að við gátum fengið skipstjóra til þess að taka seglfestu á Patreksfirði.

Jeg verð að telja það alt annað en sæmilega aðbúð, að menn á sjötugsaldri, sem vanir eru ofnhita, skuli verða að dvelja dag og nótt í ísuðu skipi — ís var á milli þilja í svefnklefunum, og lagði svo mikinn kulda af honum, að varla var þar vært. En þó að jeg hafi ferðast með slordalli í júnímánuði, þá er þess að gæta, að alt annað er að ferðast með ljelegu skipi á besta tíma ársins heldur en í apríl, þegar oft viðrar hvað verst.

Loks vil jeg ekki láta þess ógetið, að hefði jeg verið beðinn að útvega skip í vor til Reykjavíkur, hefði jeg getað fengið miklu betra skip og ódýrara en þetta.