22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

36. mál, stimpilgjald

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg verð að líta svo á, sem það sje ekki óeðlilegt, þótt hæstv. stjórn leggi fyrir þingið frv. til tekjuauka, því að hin brýna þörf, sem er á því, er svo auðsæ, en jeg hjelt, að allir hefðu sjeð þörfina strax, og því hefði jeg vænst þess, að hæstv. stjórn hefði komið fyr fram með tekjuaukafrumvörp en raun hefir á orðið.

Hæstv. fjármálaráðherra gat þess, að það hefðu verið gerðar breytingar á frv. frá því sem það var, er það lá hjer fyrir háttv. deild í fyrra, og er það rjett, en jeg verð að líta svo á, að þessar breytingar sjeu ekki til bóta, þótt þær sjeu til að auka tekjurnar, heldur sjeu þær miklu fremur axarsköft, sem ættu ekki þar að vera. Aðalbreytingin er að setja inn í frv. stimpilgjald á farmskrán sem er ekkert annað en útflutningsgjald á vöru þá, er við framleiðum, og sje jeg enga nauðsyn á að setja það inn í slíkan lagabálk sem þennan, þótt menn játuðu, að nauðsyn bryti lög, svo að lögleiða yrði skatt á framleiðsluna til bráðabirgða. Og mikið hefði mjer þótt eðlilegra, að útflutningsgjald þetta hefði verið sett í sjerstakt frv., og vil benda háttv. fjárhagsnefnd á það, enda þótt jeg dragi ekki í efa, að hún hafi opin augu fyrir því. Þetta útflutningsgjald er allhátt, 1% af verði vörunnar, einkum er þess er gætt, að það ætti ekkert að vera, því að það er miður heppilegt og ósanngjarnt, og auk þess er innifalið í verði vörunnar verð dýrrar aðfluttrar vöru, sem áður er búið að greiða vörutoll af. Þar má nefna bæði salt og tunnur, sem er dýr vara. Þetta gildir bæði um kjöt og síld. Og auk þess getur það komið fyrir, að oftar en einu sinni verði að greiða stimpilgjald af sömu vöru eða gjaldstofni. Sem dæmi þess skal jeg nefna: Kaupmaður gerir kaupsamning við annan kaupmann um að selja honum 500 tn. af kjöti. Verð þess mundi með verðlagi því, sem nú er, verða sem næst 70.000 krónur. Til þess að tryggja samninginn sem best lætur kaupandinn stimpilmerkja samninginn; það kostar 700 krónur; svo flytur hann út kjötið og verður þá að greiða 700 kr. í stimpilgjald, og loks greiðir hann kjötið með 70.000 kr. víxli; stimpilgjaldið af honum yrði 70 krónur. Stimpilgjald það, er landssjóður fær af þessu, verður því alls 700+700+70 eða alls 1.470 kr.

Þetta verður þá alltilfinnanlegur skattur, einkum þegar þess er gætt, að um 30 kr. virði af hverri tunnu er áður búið að greiða af vörutoll, sem nú er hækkaður um 100% frá því sem var. Mjer dylst ekki, að þetta er harður skattur, sem ekki er lagður á nema í brýnustu neyð, og alls ekki má standa til langframa, en þá er betra að leggja hann á með sjerstökum lögum heldur en að fella hann inn í lagabálk, sem hvað grundvöllinn snertir á að standa um aldur og æfi. Í frv. er gert ráð fyrir, að það gildi til ársloka 1921, en þetta er of langur tími, og virðist mjer, að heppilegra hefði verið að láta lögin að eins gilda þar til heimsstyrjöldinni er lokið, því að við vonum í lengstu lög, að stríðinu verði fyr lokið.

Þá vildi jeg beina því til nefndarinnar, hvort rjett sje að hafa eins hátt gjald og hjer er gert ráð fyrir af víxlum, sem ætlaðir eru til greiðslu eldri víxla, svo nefndum framlengingarvíxlum. Gjaldið virðist vera fullhátt. Ef maður tekur 10.000 kr. víxil og greiðir hann með 10 jöfnum afborgunum eða 1.000 kr. í hvert sinn, þá verður hann að greiða alls í stimpilgjald 55 krónur. Þetta verður fullhátt, ef víxillinn er má ske tekinn til þess eins, að geta haldið verslun sinni við og staðið í skilum um greiðslur sínar. Og oft eru víxlar til þess teknir.

Í frv. er svo fyrir mælt, að stimpilgjald þurfi að greiða af afsölum fyrir fasteignum, sem skiftarjettur gefur út til erfingja búsins. Þar mætti líta á það, að erfðafjárgjaldið er orðið allhátt, og þetta er eiginlega viðbót við það. Væri rjettara, að slík afsöl þyrftu ekki stimplunar eða gjaldið væri þá mjög lágt.

Loks skal jeg drepa á eitt atriði Borgarabrjef kosta nú 50 kr. Hjer er gert ráð fyrir, að greiða þurfi 100 kr. í stimpilgjald af þeim. Mjer finst það óviðkunnanlegt, að stimpilgjaldið sje 100% hærra en sjálft verðmætið Jeg hefði kunnað því betur, að borgarabrjefin sjálf hefðu verið hækkuð í verði upp í 100—150 kr., en stimpilgjaldið þeim mun lægra.

Þessar athugasemdir eru að eins gerðar til athugunar fyrir nefndina, og vænti jeg þess, að hún yfirvegi þær og sjái, að þær eru rjettmætar.