14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Einar Arnórsson:

Jeg ætla að leyfa mjer að víkja að örfáum atriðum í nefndarálitunum.

Mjer skilst, að þegar maður ber saman frv. stjórnarinnar og gildandi lög, þá sje aðalbreytingin sem orðin er sú, að lánsheimildin til sveitarfjelaganna sje numin burt, sömuleiðis að landssjóður selji vörur undir verði, og að atvinnubætur sjeu gerðar fyrir reikning landssjóðs. En aðalatriðið í stjórnarfrv. skilst mjer vera það, að landssjóður leggi til ákveðna upphæð, sem svarar 5 krónum á hvern mann, til dýrtíðarhjálpar, með því skilyrði, að hvert sveitarfjelag leggi fram 10 krónur á mann, auk venjulegra útgjalda.

En það er þetta í stjórnarfrv., hvað „venjuleg útgjöld“ hreppa eru, sem mjer fyndist rjettara að ákveða nánara, ef þetta frv. yrði samþykt. Aðaltekjustofn sveitar- og bæjarfjelaga eru aukaútsvörin, en þau eru misjöfn frá ári til árs, og því verður erfitt að segja, hver hin venjulegu útgjöld eru. Eru þau t. d. það meðaltal af útgjöldum hreppa, sem út kæmi, er tekinn væri einhver viss árafjöldi eða eru þau útgjöldin,sem verið hafa það árið, sem ekki hefir sjerstaklega staðið á. Jeg vildi skjóta því til stjórnarinnar, hvort hún vildi ekki athuga þetta.

Líka er það annað atriði í 4. gr. stjórnarfrv., sem jeg vildi athuga. Það er greinarmunurinn, sem gerður er á þeim, sem þiggja af sveit, og þeim, sem ekki þiggja af sveit. Það er sem sje vafamál, hvort halda beri þessari skilgreiningu, eða láta eitt yfir alla ganga að þessu leyti.

Svo eru það till. háttv. meiri hluta bjargráðanefndar, sem jeg vil minnast á. Háttv. meiri hluti vill halda aðferðinni að lána, og takmörkin þó 20 kr. til hvers íbúa, eða 5 kr. hærri en takmörk stjórnarfrv. En hrædduf er jeg um, að eftir till. meiri hluta bjargráðanefndar geti svo farið, að tekið verði með annari hendinni það, sem veitt verður með hinni, og því valda þessir eftirlitsmenn; jeg er hræddur um, að ef verða og verulegt gagn að þessu eftirliti, og eftirlitsmönnum verði gert að skyldu að kynna sjer nákvæmlega ástandið á hverjum stað, þá lendi alt í handaskolum og drætti, og að það verði ókleift, og jeg býst við, að það mundi enda með með því, að eftirlitsmennirnir leituðu til hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórnar, og þá rjeðu þær, en eigi þeir, í raun og veru. Og hvað gætu þær líka annað gert, sem hyggilegra væri?

Við skulum taka dæmi hjeðan.

Hugsum okkur, að bæjarstjórn Reykjavíkur leiti til landsstjórnarinnar og vilji fá lán. Landsstjórnin verður að kveðja til tvo „vel hæfa“ menn utanbæjar, sem kynna eiga sjer ástandið í bænum og leggja svo álit sitt fyrir landsstjórnina.

Guð hjálpi þessum mönnum, vildi jeg segja, sem ókunnugir eiga áð fara að ganga inn á hvert heimili og athuga matvælabirgðir, eldsneyti og jafnvel klæðnaði manna. Hvílíkur óratími mundi ekki fara í slíka rannsókn, sem þó yrði að vera svona nákvæm, ef nokkuð ætti að vera á henni að byggja. Jeg held, að þessir menn gætu ekki gert mikið annað en að snúa sjer til borgarstjóra með fyrirspurnir, og svo mundi borgarstjóri semja svör sín eftir bestu vitund og eftir ráðum fátækranefndar, bjargráðanefndar eða dýrtíðarnefndar bæjarstjórnar, og með þessi svör yrðu þessir kvöddu menn að gera sig ánægða. Og mjer er nú spurn: Hver er munurinn á þessu og því, að snúa sjer þegar í stað til borgarstjóra. Það má vera, að rannsóknin yrði erfiðari hjer heldur en annarsstaðar, en jeg býst við, að niðurstaðan yrði nokkuð sú sama, og það jafnvel í sveitunum. Ef vel ætti að vera, þyrftu þeir engu síður þar en hjer að fara heim á hvern bæ og rannsaka birgðir allar, og er mjer nær að halda, að þeir yrðu heldur sporlatir og ljetu sjer nægja upplýsingar þeirra manna, er besta þekkingu hefðu á ástandi sveitarinnar, og mundi þá valið lenda á sveitarstjórnarmönnunum.

Jeg er líka hræddur um, að ef eftirlitið á að verða meira en málamyndaeftirlit, og gerð yrði krafa til, að bygt yrði á sjálfstæðri þekkingu mannanna, þá yrði það til þess eins, að aldrei yrðu veitt nein lán. En ef því eftirlitið á að eins að verða til málamynda, því þá ekki að fá upplýsingarnar frá fyrstu hendi og sleppa þessum milliliðum? Jeg skal ekki gera svo afarmikið úr þeim kostnaði, sem þessir eftirlitsmenn bökuðu sveitunum, en þó er það óþarfi að gefa svo mikið fyrir það, sem lítils virði er eða einkis.

Svo er eitt atriði í nál. meiri hl., sem mjer finst að eigi að skilja svo, að setja skuli mjög strangar kröfur fyrir lánum þessum. Má jafnvel skilja nál. svo, að lánið verði ekki veitt fyr en mjög sje sorfið að gjaldþoli hreppa, svo að yfir vofi, að efnaðri mennirnir flýi sveitir sínar, en það gera þeir ekki fyr en í fulla hnefana, því að enginn mun gjarn á að flýja sveit sína eða bæ, þar sem hann ef til vill á fasteignir eða aðrar arðberandi eignir. Mjer finst það koma berlega fram hjá meiri hl., að hann kannist ekki við, að veruleg neyð sje fyrir dyrum, fyr en ástandið er orðið svo slæmt. Til þess að rannsaka þetta skulu skipaðir „tveir óvilhallir trúnaðarmenn“. Þessi setning í áliti meiri hl. styrkir mig í þeirri trú, að rannsóknin sje hafin til þess að reisa skorður við því, að þessi lán verði misbrúkuð. Það er alveg rjett að setja skorður við því, að lánin verði misbrúkuð, en gæta verður þess; að hafa ekki þær skorður svo þröngar, að þær eyðileggi framkvæmd laganna. Og að setja skorðurnar svo þröngar fyrir lánunum, að þau skuli ekki veitt, fyr en að því sje komið, að efnaðri mennirnir flýi sveitirnar, það álít jeg of langt farið. Og ef svo er komið, að annaðhvort eru þessir menn byrjaðir, eða hætta er á, að þeir yfirgefi sveitina eðá bæjarfjelagið, þá er hjálpin of lengi dregin.

Jeg vil svo taka það fram að lokum, að þótt svo fari, að brtt. meiri hl. verði samþyktar, þá vil jeg slá þann varnagla, að heimildina fyrir lánunum mætti nota, þótt ástandið væri ekki svo afskaplegt á staðnum, eins og nál. gerir ráð fyrir að þurfi að vera.

Jeg skal svo ekki lengja umræðurnar meira, en óska þess, að ef stjórnarfrv. verður samþykt, þá taki nefndin athugasemdir mínar og athugi þær í sambandi við þetta frv.