22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

36. mál, stimpilgjald

Kristinn Daníelsson:

Það mun ekki vera til þess ætlast, að þessi 1. umr. verði löng, og síst að farið verði út í einstök atriði málsins. Það þýðir ekki heldur að tala um, hvort málið sje seint eða snemma inn á þingið komið; það verður að afgreiðast hvort heldur sem er. En gott gæti verið fyrir nefndina, sem fær málið til umsagnar, að heyra undirtektir manna við þessa umræðu. Þess vegna er það, að jeg tek nú til máls.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem frv. um stimpilgjald er borið fram í þinginu. Ef jeg man rjett, hefir það komið fram á þrem þingum, og verð jeg að lýsa yfir því, að jeg hefi í engu breytt fyrri skoðun minni, sem hefir verið sú, að það svaraði sjer ekki hjer á landi að innleiða stimpilgjald. Umstangið við undirbúning og innheimtu stimpilgjaldanna er svo mikið, og haftið, sem lagt er á viðskifti manna á milli, er svo tilfinnanlegt, að arðurinn af svona lögum svarar ekki til þess. Mjer finst leitt að vera á móti frv., sem stefnir að tekjuauka fyrir landssjóð, því að tekjuaukans er þörf, en það er sannfæring mín, að stimpilgjald eigi ekki við hjer á landi.

Ef jeg væri því mótfallinn, að lagður væri skattur á framleiðsluna, þá mundi jeg áreiðanlega vera því mótfallinn, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að lagt sje stimpilgjald á farmskrár. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sje yfirleitt mótfallinn því, að leggja skatt á framleiðsluna. Jeg sje eigi, að neitt sje á móti því að leggja skatta eins á þá, sem framleiða og hafa eitthvað að selja og taka inn verð fyrir, eins og hina, sem kaupa, svo sem gert er með venjulegum tollum. En jeg tek þetta fram af því, að það væri ósk mín, að háttv. fjárhagsnefnd gæti snúið stimpilgjaldsfrv. upp í einhverskonar beint og brotaminna skattafrv., og mætti hún þá fremur búast við fylgi mínu. Vona jeg, að mönnum skiljist það, að jeg er ekki á móti tekjuaukanum.

Fjármálaráðherrann tók það rjettilega fram, að hjer væri ekki að tala um nein bráðabirgðalög. Það er auðvitað mál, að ekki er hægt að leiða svo margbrotið kerfi, sem stimpilgjöld eru, í lög til bráðabirgða. Framkvæmd á slíkum lögum er svo margbrotin, umsvifamikil og kostnaðarsöm, að annaðhvort er að koma þeim á fyrir fult og alt, eða játa það algerlega vera.

Það voru að eins þessar athugasemdir um aðalatriði, sem jeg vildi hreyfa við 1. umr. málsins.