20.04.1918
Efri deild: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (1604)

3. mál, fráfærur ásauðar

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Jeg býst ekki við, að nefndin geti orðið við þeim tilmælum hæstv. atvinnumálaráðh., að taka till. sína aftur, því jeg held, að hann hafi ekkert um málið sagt, sem nefndin var ekki búin að hugsa um. (Atvinnumálaráðh.: Það hefir ekki komið fram í nál. eða ræðu frsm.). Það er eðlilegt, að málið horfi nokkuð sjerstaklega við hæstv. atvinnumálaráðh., því að hann er úr þannig sveit — Köldukinn — að þar verður lítill munur á dilkum og graslömbum, því þar er bæði gott land og nóg vatn. En þetta kemur öðruvísi út t. d. á Reykjaheiði, sem er stærri afrjettur, hrjóstrugt land og þurt. Annars er þetta mál gamalt spursmál, sem við atvinnumálaráðh. höfum lengi verið sinn á hvorri skoðun um.

Viðvíkjandi aukningu þeirri á matarframleiðslu, sem haldið er fram að fylgi fráfærunum, þá tel jeg víst, að stj.frv. geri ráð fyrir of miklu, þar sem það áætlar 2½ kg. af smjöri eftir ána, yfir sumarið. Það mundi samsvara 40 lítrum af mjólk, en eftir því, sem jeg þekki til, mun fullnóg að gera ráð fyrir 30 1, eftir ána, og er þá ekki hægt að áætla meira en 13/4 kg. af smjöri.

Við meðferð undanrennu mjólkurinnar eru naumast nema tvær leiðir til; önnur sú, að breyta henni í ost, hin sú, að breyta henni í skyr.

Ostagerð er hjer, enn þá sem komið er, á lágu stigi, en sje mjólkinni breytt í skyr, vantar ílátin til að láta það í og flytja um landið. Og þótt næg ílát fengjust, mundu þau verða dýr, engu síður en kjötílátin.

Því hefir verið haldið fram, að ábyrgðarhluti sje að vera á móti frv. þessu, en jeg tel það ekki síður ábyrgðarhluta að stofna framleiðslu heyjanna og kjötmarkaðinum í hættu.

Hæstv. atvinnumálaráðh. hjelt því fram, að kjötmarkaður vor mundi bundinn við England. En mjer þykir hitt þó eins líklegt, að markaður náist á Norðurlöndum, ef útflutningsleyfi fæst á annað borð.

Það sem hann tók fram um óvinsældir málsins hefir nokkuð til síns máls. Því það er satt, að slíkt má ekki hræða frá nauðsynlegum ráðstöfunum. En óvinsældirnar geta þó verið of miklar, og mjer er kunnugt um það, að fjöldi bænda er þessari ráðstöfun mótfallinn. Jeg veit ekki betur en að sýslunefnd S.-Þing., sem mál þetta var borið undir, teldi hana óráðlega, og mjer er kunnugt um, að fjöldi bænda, víðs vegar um land, lítur þeim augum á málið.

Það hefir verið bent á, að fráfærur hafi borgað sig vel, þar sem þær hafa tíðkast, hingað til, en það er mjög skiljanlegt, því að auðvitað hafa þær haldist við á þeim stöðum, sem þær borguðu sig best.

Viðvíkjandi mismuni á dilkum og hagalömbum, þá hygg jeg að láti nærri, að hagalamb, sem vegur 60 pd., sje sem dilkur um 80 pund, og verður kjötmismunurinn þá nálægt 7 pd., en munur á mör um 2 pd.

Munurinn á kjöti ánna hygg jeg að verði líkur. Jeg þykist eins viss um, að 40 pd. falli af dilkánni, eins og 32—33 pd. falli af kvíaánni, og munurinn á mörnum verður meiri en á lömbunum.

Það var svo ekki fleira, sem jeg vildi segja að þessu sinni, enda hefir verið svarað rækilega frá öðrum hliðum.