22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

36. mál, stimpilgjald

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg ætla ekki að fara að koma með aðfinslur við svar hæstv. fjármálaráðh.; svör hans í minn garð voru skýr og glögg. Jeg ætlaði að eins að bæta við einu atriði, sem jeg gleymdi áðan. Jeg vildi benda háttv. fjárhagsnefnd á b-lið 3. gr., sem er um stimpilgjald af farmskrám. Vandalaust er að ákveða stimpilgjaldið, þegar vörurnar eru seldar fob. Þá er bara, að miða við söluverðið óhaggað. En nú eru vörurnar oftast sendar óseldar, og enginn veit, hvað verðið muni verða, að frádregnum flutningskostnaði. Um það getur jafnvel verið ókleift að áætla. En fyrst ekki er hægt að miða við söluverðið, hvað væri þá á móti því, að miða stimpilgjaldið við kaupverðið? Það má telja víst, að kaupverðið er oftast sanngjarnt. Svona væri þessu best fyrir komið, og væri þá rjett að geta þess berum orðum í frv.

Í frv. er gert ráð fyrir, að lögreglustjóri meti vöruna, ef hún er óseld, en á þessu geta orðið ýms vandkvæði. Sumstaðar býr lögreglustjóri mjög langt frá kaupstaðnum, sem flutt er út frá, og yrði því að hafa umboðsmann á staðnum. En vandkvæði geta verið á því að fá umboðsmann, sem er treystandi. í minni sýslu eru tvö kauptún mjög langt frá sýslumanni, og á hvorugum staðnum nema einn kaupmaður, og hann jafnframt afgreiðslumaður skipsins. Miður heppilegt væri það að láta afgreiðslumennina sjálfa meta sína eigin vöru, en á þessum stöðum er varla um aðra að velja. Eins býst jeg við að sje ástatt á mörgum öðrum stöðum.