01.06.1918
Efri deild: 33. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (1626)

33. mál, veðurathugunarstöð í Reykjavík

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Þótt nál. sje stutt, hefi jeg litlu við það að bæta. Jeg get ekki fyrir nefndarinnar hönd gefið neinar ítarlegar skýrslur um einstök atriði málsins, því að hún hefir ekki getað aflað sjer þeirra svo, sem henni þótti þurfa, og af þeim sömu ástæðum hefir nefndin komist að þessari niðurstöðu, sem nál. ber með sjer.

Mjer ,fyrir mitt leyti, þótti það leitt að verða að komast að þessari niðurstöðu, þar sem jeg lít svo á, að málið sje alls eigi þýðingarlítið, en mundi geta haft bæði vísindalega og raunverulega þýðingu fyrir lífið.

En nefndarmenn urðu sammála um það, að þeir hefðu ýms atriði málsins of lítið á valdi sínu, til þess, að þeir gætu ráðið til þess að leggja út í fyrirtæki þetta.

Eins og kunnugt er, þá er fjárhagur landsins erfiður og mun verða það á næstu árum, og gæti svo farið, að þrengst yrði í búi einmitt þegar byrja ætti á verki þessu. En til þess að það fullnægi þeim kröfum, að hafa bæði vísindalega og raunverulega þýðingu, þá er það gefinn hlutur, að alt yrði að vera í fullu lagi.

Mjer er það að vísu ekki fullljóst, hve mikið þarf til þess, en jeg tel þó víst, að til þess þurfi mikið fje.

Og oft hefir svo farið, að menn hafa ekki í upphafi gert sjer fulla grein fyrir því, hvað til þurfi, þegar ráðist hefir verið í ýms fyrirtæki, og oft hafa þá vakist upp fleiri erfiðleikar og meiri kostnaður en gert var ráð fyrir í upphafi. Má t. d. benda á, að kjör starfsmanna hafa í fyrstu verið miðuð við sultarlaun, og hefir því orðið að hækka þau bráðlega, og hefir það aukið áætlunarkostnað.

En til þess að fyrirtæki þetta kæmi að fullum notum, yrðum við að hafa bein skeytasambönd við Vesturheim, og enn fremur vantar til þess símstöð á Grænlandi.

Auk þess yrði að setja hjer á stofn athugana- og merkjastöðvar.

En alt þetta hlyti að hafa í för með sjer svo mikinn kostnað og erfiðleika, að ekki getur talist gerlegt að ráðast í það að svo stöddu.

Alt þetta þarf líka miklu betri og rækilegri undirbúning, og kom nefndinni því saman um að fela stjórninni að undirbúa málið á sínum tíma.

Jeg vil því, fyrir nefndarinnar hönd, leggja það til að rökstudd dagskrá á þgskj. 248 verði samþykt.