18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (1640)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Björn R. Stefánsson:

Jeg heyrði það á ræðum hæstv. forsætisráðh. og hv. frsm. (M. P.) að þeir höfðu misskilið mig. Það langar mig til að leiðrjetta. Hæstv. forsætisráðh. sagði, að jeg hefði verið að tala um það, að aukatekjur lækna mundu vera töluvert rífar. Jeg sagði það ekki í þeirri merkingu, að þær væru svo miklar, að það væri ekki ástæða til að bæta við þær, heldur í þeirri merkingu, að afkoma lækna myndi ekki vera verri en annara embættismanna. Þá talaði hæstv. forsætisráðh. um það, að það myndi vera lítið upp úr meðalasölunni að hafa. Það er nú sjálfsagt nokkuð misjafnt, og fer eftir því, hvernig læknirinn beitir því; en ef það er rjett, sem gefið hefir verið í skyn, að sumir læknar gefi kann ske meira og minna af þessum tekjum sínum, þá býst jeg við, að þeir myndu alveg eins gera það, þó að þeir ættu að taka nokkuð meira fyrir. þá nefndi hæstv. forsætisráðh. sjúkrasamlögin, og er jeg honum þar alveg samdóma um það, að þau beri að efla sem fyrst og best, en það gengur alt of seint með þeirri aðferð, sem nú er; við þurfum nú þegar að koma á almennum sjúkrasjóðum, og jeg hygg, að þetta hv. þing muni standa svo lengi, að það væri hægt að koma því máli fram. En hvað það snertir, að við látum frv. lifa til 3. umr., þá vildi jeg heldur leggja til að það verði tekið út af dagskrá og látið bíða um sinn, því að tíminn verður víst nógur, og skal jeg lofa því, að berjast ekki í móti að læknar fái einhverja rjetting mála sinna, því að þeim ætti síst að verða vangoldið, þar sem þeir verða hverja stund að vera við því búnir að leggja af stað í erfiðar ferðir og hættulegar.

Þá spurði frsm. (M. P.) mig, hvort jeg teldi alla sjúklinga fátækasta hluta þjóðarinnar. Jeg talaði um sjúklinga yfirleitt, í sambandi við heilbrigði yfirleitt, og þó jeg viti, að sjúkdómar falli eins á ríkan eins og fátækan, þá er það þó þungur skattur engu að síður, en það getur kanske verið, að sjúkdómar sjeu ótíðari með fátækum, sem mjer þó finst óeðlilegt; jeg ímynda mjer öllu heldur, að það álit byggist á því, að þeir fátæku komi alls ekki til læknis, fyr en eitthvað verulegt er á ferðum, að þeir treysti sjer ekki til að fara með hvert eitt smáræði til læknis, jafnvel þó þörf væri á því; ímynda jeg mjer að þeir kynoki sjer enn þá meira við það, ef verðskráin er hækkuð, og tel jeg það því ekki heppilegt að hækka hana svo mikið að þeir, máske margoft sjer til tjóns, leiti alls ekki læknis.

Jeg endurtek það, að mig varðar ekkert um þá aðferð, sem aðrar þjóðir hafa í þessu efni. Jeg álít, að þessi aðferð, sem nefnd er í fylgiskjalinu við frv., sje ekki heppilegt, og þess vegna vil jeg ekki fara að því, þótt aðrar þjóðir hafi það svo. Jeg vil taka að eitt upp, sem vel á við hjer, en ekki apa eftir það sem óheppilegt er og óviðeigandi.

Jeg geri það að till. minni, að málið sje tekið út af dagskrá um sinn, heldur en að eiga það á hættu, að það verði felt nú þegar.