18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1641)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki tefja tímann lengi, en jeg vildi geta þess, að þó að jeg hafi í þetta skifti greitt atkv. með frv., þá er það ekki svo, að jeg telji mjer skylt að greiða því atkv. til 3. umr., heldur var það af því, að jeg gerði mjer von um að fram kæmu brtt., sem jeg gæti felt mig við.

En þó að jeg hafi þessi orð um frv., þá er það ekki af því, að jeg sjái ekki þörfina á launabótum til lækna og viti ekki, að sanngirniskrafa mæli með því, að reynt sje að bæta kjör þeirra, því að jeg viðurkenni fyllilega, að þeir hafa lengi borið skarðan hlut í launakjörum sínum. En jeg óttast, ef horfið verður að þessu ráði, að mörg hjeruð sæki um styrk til að leita læknishjálpar, svo sem þekst hefur áður og nú yrði brýnni ástæða til.

Jeg skal lýsa yfir því, að jeg að ýmsu leyti hallast að skoðun hv. samþingismanns míns (B. St.) og hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), og að mjer þykir ákaflega viðurhlutamikið að leggja þyngri byrðar á sjúklinga heldur en verið hefir, og jeg tel allsendis óviðeigandi að gert sje gys að því, hvað læknar fái lítið fyrir aukavinnu sína. Um erfiðleikana og kostnaðinn við læknishjálp hefi jeg heyrt marga kvarta, en engan telja gjaldið hlægilega lágt. Fyrir sjúkling kemur í einn stað niður, hvort fjeð gengur til læknis eða í ferðakostnað. Hann verður auk sjúkleikans að bera þá hækkun gjaldsins, sem hjer er farið fram á, ef þetta verður að lögum.

Frekar skal jeg ekki tefja umræður, en atkvæði treystist jeg ekki að gefa þessu frv.