27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (1651)

104. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Frv. þetta stendur í nokkuru sambandi við frv. á þgskj. 393. Eins og kunnugt er hefir nú verið felt frv. um hækkun á aukatekjum lækna. En fjárveitinganefnd hefir nú borið fram frv. um launaviðhót embættismanna. En hins vegar sá hún sjer ekki fært að hækka föst laun lækna, svo sem þörf gerðist. En henni fanst sanngjarnt, að þeir, sem læknana nota, tækju nokkurn þátt í hækkuninni. Þessi hækkun nemur helmingi þeirrar hækkunar, sem áður var farið fram á. Nefndinni virtist það eigi óhæfilegt, að þeir, sem læknis vitjuðu, gyldu eitthvað. Föstu launin eru í raun og veru að eins þóknun til læknisins fyrir að vera á þessum stað og til þess að hann taki ekki of hátt gjald fyrir starf sitt. Hjer er eigi farið fram á svo mikla hækkun, að ástæða sje til að vera á móti henni. Þegar fjárhagur landssjóðs er jafnerfiður og nú, virðist bæði sanngjarnt og eðlilegt, að almenningur taki einhvern þátt í þessari hækkun.

Starf læknanna er alt of lágt metið. Daglaunamenn fá t. d. þrefalt hærra gjald fyrir störf sín en læknirinn. Og geta má þess, að dýralæknum er ekki settur neinn taxti. Á sama tíma og annars er vitjað til þess að lækna kú er hinn sóttur til konu í barnsnauð. Hinum fyrra yrði sennilega goldið þrefalt hærra kaup fyrir að drepa kúna heldur en hinum fyrir að bjarga lífi konunnar. Jeg verð að segja, að slík hlífni við menn er gersamlega óþörf.

Menn hafa fært það til gegn taxtahækkuninni, að sjúkdómar sjeu böl og það sje skylda hinna heilbrigðu að taka þátt í kjörum þeirra, sem sjúkir eru. Þetta er að vísu satt. En hjer eru mörg bölin, sem bæta þarf. Jeg vona, að hv. deild sjái, að sú hækkun, sem hjer er farið fram á, er bygð á fylstu sanngirni, til þess að ljetta lítið eitt á landssjóði, með því að rjett þykir, að þeir, sem lækninn nota, borgi honum dálítið fyrir ómakið.

Jeg sje eigi ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar að svo stöddu. Jeg hefi heyrt menn segja, að læknar hafi hingað til sett ferðir sínar nógu hátt, þó að eigi væri þeim gefið tækifæri til þess að hækka það gjald nú að nýju. það er að vísu rjett, að þeim, sem langt þurfa að vitja læknis, verður læknishjálpin dýrari heldur en hinum, sem nálægt honum búa. En hjá því verður ekki komist; það verður einu sinni svo að vera. Enda mætti þá eins með sanni segja, að landssjóður ætti að greiða þeim mönnum, sem búa fjarri kaupstað, sjerstakt gjald fyrir vöruflutninga.