27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (1653)

104. mál, skipun læknishéraða

Forseti:

Út af ummælum hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að eigi hafi verið leyfilegt, að taka mál þetta aftur til meðferðar á þessu þingi, úr því að það hafi áður verið felt, skal jeg leyfa mjer að geta þess, að þetta hefir verið athugað, og niðurstaðan orðið sú, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, á þgskj. 391, sje ekki sama og frumvarpið á þgskj. 178, er felt var hjer í deildinni á fundi 23. f. m. í 28. gr. þingskapanna segir: „Lagafrumvarp, er önnur hvor deildin hefir felt, má eigi bera upp aftur á sama þingi“. Og með því að bera þetta frv. saman við frv. það, sem felt var, má sjá, að á þessum tveim frv. er ekki að eins orðamunur, heldur einnig talsverður munur að efni, og verður því ekki sagt, að hjer sje um sama frv. að ræða.

Fyrir því er hjer með úrskurðað, að framangreind ákvæði þingskapanna sjeu ekki því til fyrirstöðu, að frv. þetta verði tekið til meðferðar af hv. deild.