27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (1656)

104. mál, skipun læknishéraða

Einar Jónsson:

Eins og háttv. deildarmenn sjálfsagt muna, er jeg einn af þessum stórsyndurum, sem urðu til að ráða niðurlögum frv. þess um hækkun á aukatekjum lækna, sem felt var hjer í deildinni um daginn. Og jeg er ekki kominn á aðra skoðun síðan þá. Jeg er enn þá á sömu skoðun, sem jeg lýsti yfir við umræðurnar um það mál, að rjettmætt sje að bæta kjör læknanna, en að það eigi að gera á þann hátt, að hækka föst laun þeirra, en ekki þær tekjur, sem þeir fá eftir gjaldskránni. — Viðvíkjandi því sem háttv. þm. Stranda. (M. P.) var að tala um, að nokkrir þm. hefðu verið að gala um það, að þeir vildu bæta kjör læknanna, en kæmu svo ekki fram með neitt í þá átt, þá skal jeg viðurkenna, að jeg var einn af þeim fyrstu, sem hóf andmæli gegn frv. En jeg tek ekki til mín neinar ákúrur fyrir það. Jeg kannast ekki við það, að jeg hafi galað umbætur, án þess að gera neitt til að koma þeim á, því jeg gerðist strax meðflutningsm. að frv., sem fór fram á að bæta kjör lækna og fór í því efni lengra en frv. það, sem nú er fram komið, á þgskj. 391. Sú leiðin, til að bæta kjör lækna, sem þar er farin, — eins og háttv. þm. Stranda, (M. P.) líka hefir bent á, — er vel fær, og jeg verð að álíta, að að öllu samanlögðu sje það rjettasta leiðin. En jeg vil ekki skifta uppbótinni niður í margar leiðir.

Jeg ljet að öðru leyti í ljós skoðun mína á þessu máli við umræður um fyrra frv., og skal ekki endurtaka neitt af því hjer, enda hafa aðrir tekið fram sumt af því, sem ástæða er til að athuga.

Háttv. þm. Stranda (M. P.) sagði, að það væri almenn ánægja úti um land yfir því, að læknataxtafrv. var drepið hjer á dögunum. Jeg verð nú að álíta, að háttv. þm. hafi ekki fyrir sjer neitt almannamál, því hann hefir ekkert um það spurt. En viss er jeg um það, að allur þorri almennings mundi heldur greiða atkvæði með því að hækka fremur launin en gjaldskrána.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vildi, að læknirinn fengi einhverja borgun frá sjúklingnum fyrir læknishjálp sína. Það fá þeir hvort sem er. Sjúklingarnir sleppa ekki við að borga lækninum, þó ekki sjeu hækkaðir taxtarnir, meðan núgildandi gjaldskrá er í gildi, og jeg fyrir mitt leyti hefi enga tilhneigingu til að nema hana úr gildi. Mig furðar það stórlega, að nokkur skuli geta verið á móti því, að landssjóður borgi læknunum það, sem vantar á, að þeir geti lifað af tekjunum, sem þeir hafa, en vilja heldur leggja þunga skatta á sjúklingana, sem verða að bera manna þyngstar ábyrðar.

Jeg skal með fúsu geði fylgja því, að hækka laun læknanna meira en farið er fram á í frv. á þgskj. 391, eða þá. að veita þeim dýrtíðaruppbót af aukjatekjunum, þó jeg búist við því, að aukatekjurnar verði þá meiri en læknar láta nú í veðri vaka að þær sjeu. Jeg á bágt með að trúa því, að aukatekjur lækna sjeu ekki meiri en þeir alment gefa upp.

Sjerstaklega finst mjer það að athuga við hækkun gjaldskrárinnar, að þeim, sem veikir eru, eru með því bakaðir erfiðleikar. Því við það verða menn að kannast, að það eru fleiri fátækir en ríkir, sem veikir eru, og þá munar því um sjerhverja hækkun á lækniskostnaðinum. Þó háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) haldi því fram, að ekkert fleiri sjúklingar sjeu fátækir en hinir, sem efni hafa á að borga fyrir sig, þá er það ekki rjett. Lífsskilyrði fátæklinganna eru þannig, og híbýli og aðbúnaður allur lakari og orsakar tíðari veikindi meðal fátæklinga en efnamanna.

Annað atriðið er það, að þeir, sem langt eiga að sækja til læknis, verða að borga miklu meira fyrir læknishjálp sína, ofan á annan kostnað við að vitja læknisins, en þeir, sem búa í grend við læknissetrið, komast að miklu leyti hjá þessari hækkun.

Þegar um það er að ræða, að líkja ferðakaupi læknanna við kaup verkamanna eða vinnumanna, þá er þar ólíku saman að jafna. Læknarnir eru fyrst og fremst launaðir til þess að hafa þessi störf á hendi, og í öðru lagi eru þeim lögð til flutningatæki og borgaður fyrir þá allur kostnaður við ferðina. Þeir leggja til þreytuna, sem af ferðinni leiðir, og annað ekki. Með verkamanninn er aftur öðru máli að gegna. Þó kaup hans sje hærra, þá verður hann að fæða sig og kosta að öllu leyti af þessu kaupi.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) mintist á það, að við, sem atkvæði greiddum móti gjaldhækkunarfrv. um daginn, hefðum orðið fyrir skömmum í opinberum blöðum. En jeg verð að segja það, að skammir hafa sömu áhrif á mig og hann sagði að þær hefðu á sig. Jeg tek þær ekki minstu vitund til greina á nokkurn hátt. Þó skrifaðar væru um mig 20 skammargreinar og hver þeirra væri gefin út 20 sinnum, þá stæði jeg jafnkeikur fyrir því, með eða móti hvaða mál sem er. Það, sem sagt er um mig sjerstaklega, eða þingið í heild sinni, hvort heldur er í kirkjuræðum eða í blaðagreinum,það hefir ekki nokkur minstu áhrif á mig. En slíkar kirkjuræður geta stundum gert mig undrandi, eins og t. d. ein kirkjuræða, sem haldin var hjer í Reykjavík í vetur og síðan kom út sem grein í blöðum. Þessi grein gerði mig undrandi fyrir þá sök, að hún kom frá presti, eins og gefur að skilja, þar sem það var kirkjuræða. En hitt var ekki síður undravert, að hún skyldi koma frá fyrverandi þingmanni, sem fyrst og fremst gat sjer engan afburða orðstír með þingsetu sinni, en ætti því fremur, fyrir það að hafa verið þm., að skilja, hversu óholt það er, að ala á lítilsvirðingu fyrir þinginu. Í þessari grein er því haldið fram, að þingið sje hvorki húshæft nje kirkjuhæft. Mig furðar á því, að nokkur maður, sem er svo miklu skyni og mentun gæddur, að geta skrifað blaðagrein, skyldi geta lagt sig í að skrifa annað eins, þó ekki þurfi mikla hæfileika til þess. Óvandaðar skammir geta líka allir skrifað, sem kunna á annað borð að halda á penna. En slíkar greinar hafa lítil áhrif á fjöldann. (E. A.: Það lítur einmitt út fyrir að þær hafi haft talsvert mikil áhrif á háttv. þm. (E. J.), því hann talar svo mikið um þetta). — Það þýðir því ekki fyrir nokkurn mann að taka penna til að skrifa slíkt, ef jeg á í hlut. — Það er svo ekki ástæða til að segja meira um málið frá minni hálfu. Jeg mun sýna það með atkvæði mínu, hvað jeg vil að fram gangi.