27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (1660)

104. mál, skipun læknishéraða

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Eins og kunnugt er, hafa læknar sjer til lífsframfærslu laun úr landssjóði og gjald fyrir læknisverk sín. Nú hefir hvort-tveggja þessi borgun lækkað í verði sökum dýrtíðarinnar. Hvað er nú annað, sem fjárveitinganefnd leggur til, en að þetta verðfall verði að nokkru bætt? En þó er langt frá því, að það, sem lagt er til að landssjóður og sjúklingar borgi umfram það, sem áður var, vegi upp á móti verðfallinu.

Jeg sje enga ástæðu til þess nú, þegar hagur landssjóðs er jafnbágur og hann er, að taka greiðsluskylduna af öðrum aðilja og leggja hana á hinn. Það er ekki svo um landssjóðinn, að hann sje botnlaus hylur, sem ætíð sje hægt að veiða upp úr. Almenningur verður að gjalda í hann aftur. Því er engin furða, þó að þeir menn, er lítið gjalda til landssjóðs, vilji mjólka hann sem mest. Tala jeg þetta til hv. 2. þm. Rang. (E. J.). Það eru ekki bændurnir í Rangárvallasýslu, er drýgstan skerfinn leggja til landssjóðs, heldur miklu fremur aðrir, og þá helst þeir, er við sjó búa. Það er því skiljanlegt, að þeir menn muni helst nota atkvæðisrjett sinn á þann hátt, að láta landssjóð veita sjer fríðindi, sem minst greiða til hans aftur.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) kvað ekki rjettlátt, að sjúklingar greiddu þetta verðfall peninganna. Það get jeg með engu móti fallist á. Sjúklingum er jafn skylt að greiða uppbót að sínum hluta eins og landssjóði að sínum. Vona jeg, að hv. þm. (B. Sv.) sjái, að þetta er í alla staði og allra hluta vegna sanngjarnt, og greiði því frv. atkvæði.

Minst hefir verið á rjett læknanna á uppbót á aukatekjum þeirra. Get jeg vel skilið þessa skoðun frá sjónarmiði þeirra, sem álíta, að ekkert geri til, þó að landssjóður bergi. En annars hlýt jeg nú sem áður að vera á móti þeirri stefnu.