27.06.1918
Neðri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (1661)

104. mál, skipun læknishéraða

Einar Jónsson:

Jeg vildi að eins mæla örfá orð í tilefni af ræðu hv. framsm. (M. Ó.) og nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Stranda (M. P.).

Báðir þessir hv. þm. hafa fundið ástæðu til þess að vefengja það, er jeg sagði, en mjer finst jeg geta staðið við. Háttv. þm. Stranda (M. P.) sagði, að aukatekjur lækna hefðu verið taldar fram árið 1916 á þann veg, að fjórðungur lækna hefði að eins 50—500 kr. aukatekjur. Mjer dettur í hug, að læknir, er hefir 50 kr. aukatekjur á ári, muni ekki gera svo ýkjamikið gagn. Að minsta kosti er sá læknir lítið notaður, hvort sem það stafar af því, að hann sje ófær til starfsins, óvinsæll, eða þá aðrar orsakir liggja til þess.

Þar sem háttv. þm. (M. P.) drap á tíund í sambandi við aukatekjuframtal lækna, er hann hjelt fram að vera mundi ábyggilegt, þá skal jeg geta þess, að mjer hefir að undanförnu þótt framtal lækna á aukatekjum sínum furðu lágt, engu síður undralágt heldur en tíund framteljanda á lausafje yfirleitt. Jeg hefi t. d. sjeð skýrslur lækna um aukatekjur til launamálanefndarinnar, og þá furðaði jeg mig á því, hve lágar þær voru taldar, án þess þó, að jeg sje að rengja, að rjett hafi verið sagt til á sumum stöðum.

Þá sneri háttv. þm. (M. P.) út úr orðum mínum, er hann sagði, að jeg hafi borið kaup vinnumanna saman við ferðakaup lækna. Það gerði jeg ekki, en þó má taka það til samanburðar. Ekki er algengt, að kaup vinnumanna fari fram úr 1 kr. á dag. En þeir munu að jafnaði vinna 12 tíma daglega, og hafa þeir þá miklum mun minna kaup en læknar. En áður höfðu menn borið ferðakaup lækna saman við kaup verkamanna í kaupstöðum, og það var einmitt það, sem jeg gerði. Verkamannakaup mun nú vera venjulega 75 au. um kl.st., og hafa læknar þá að vísu minna kaup en verkamenn, því að 30 au. kaup er lægra en 75 au.

En eins og jeg sagði áður, þá verður þetta fólk að kosta sig alveg sjálft af þessum 75 au., en læknarnir hafa fría ferð og taka þetta inn „nettó“.

Þá var hv. framsm. (M. Ó.) að furða sig á, að nokkur skuli greiða atkvæði þannig, þegar hagur landssjóðs sje eins og nú sje hann, og heldur hann að það sje af því, að jeg vilji að bændur í Rangárvallasýslu losni við að greiða í landssjóðinn, og virtist hann gefa í skyn, að þeir leggi lítinn skerf til útgjalda landssjóðs. En jeg get sagt þessum hv. þm. (M. Ó.), að bændur í Rangárvallasýslu hafa ekki legið á liði sinu um að borga sín útgjöld til hins opinbera, þótt þeir, eins og aðrir sveitabúar, leggi af skiljanlegum ástæðum minna fram en íbúar sjávarhjeraða, en þeir hafa líka miklu minna úr býtum borið úr landssjóðnum en sjávarhjeruðin. En það er æfinlega svo, að þegar þessum hv. þm. (M. Ó.) dettur í hug, að sveitirnar borgi minna í landssjóðinn en sjávarhjeruðin, þá ætlar hann að ærast og springa af ofmetnaði fyrir sjávarmanna hönd og ósanngirni í garð sveitamanna. Hann kemur þó talsvert við landssjóðinn sjálfur — þó það sje fjarri mjer að segja, að hann sje óþarfur maður, — en þá tekur hann fje af öllum landsmönnum og þar á meðal líka Rangæingum. En þar sem hann sjálfur er landssjóði dýr, þá ætti hann að spara sjer þau orð hjer, að sveitarfjelögin sjeu að draga sig undan gjöldum. En þessu líkt hefir þessi sami hv. þm. (M. Ó.) oft að orði komist áður í garð sveitahjeraðanna, en jeg álít þau ummæli ósanngjörn og ómakleg og koma úr hörðustu átt.