02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (1673)

107. mál, verðlagsnefndir

Frsm. (Sigurður Stefánsson); Hæstv. atvinnumálaráðherra fann það helst að frv., að það myndi ekki geta náð til hinna einstöku kauptúna úti um land. Hæstv. atvinnumálaráðh. sagði, að það væri mismunandi staðhættir og fleira, sem gæti orsakað verðmun, og það er líka rjett. En það er einmitt gallinn, að þegar ein verðlagsnefnd setur sama verðið um alt land, þá getur það, þó það sje rjettlátt á einum staðnum, orðið ósanngjarnt á öðrum, vegna mismunandi staðhátta og fleira, t. d. vegna mismunandi kostnaðar við framleiðslu á vörunni, því að það kostar mismunandi mikið, og getur því ekki verið sanngjarnt að hafa sama verð um alt land.

Hvað það snertir, að hafa eina verðlagsnefnd, þá hygg jeg, að það muni álit flestra, að hún verði fremur gagnslítil, enda er það vitanlegt, að sú rannsókn, sem fram hefir farið um störf þessarar nefndar, hefir ekki sýnt, að hún hafi ráðið nokkru verulegu um verð á vörum úti um land, einmitt vegna þeirra erfiðleika, sem á því hljóta að vera, og þó að hæstv. atvinnumálaráðh. segði, að með nákvæmu eftirliti mætti „kontrollera“ það, þá er það vandkvæðum bundið og ekki mögulegt að koma því á, þó að ein verðlagsnefnd sitji hjer í Reykjavík. — Hins vegar ber enginn brigður á það, að hvað útsöluverð á útlendum vörum snertir, þá er nú minna fyrir hana að gera en verið hefir, og á því byggist þetta frv. Jeg hygg því, að þessar athugasemdir hæstv. atvinnumálaráðherra, þótt þær sjeu rjettar frá hans sjónarmiði, muni ekki nægja til þess að halda í þá allsherjarverðlagsnefnd, sem sett hefir verið, nje heldur til þess, að þetta frv. nái ekki fram að ganga.