02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1679)

107. mál, verðlagsnefndir

Gísli Sveinsson:

það væri synd að tala lengi yfir svona fáum mönnum, liggur mjer við að segja, þar sem svo margir þingmenn eru bundnir á öðrum fundum og geta því ekki hlýtt á umræðurnar. En jeg get ekki annað en sagt nokkur orð, fyrst hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) gerði mjer þann heiður, að minnast á mig, út af ummælum, sem jeg hafði haft endur fyrir löngu hjer í deildinni. Enda var það auðheyrt, að hann var undir það búinn að tala núna, og hefir hann nú ljett á hjarta sínu.

Hv. þm. (B. J.) ljet svo um mælt, að hann vissi ekki, hvað það hefði verið í ræðuhv. þm. Borgf. (P.O.), sem jeg hefði átt við, þegar jeg sagði, að orð hans væru vafalaust töluð fyrir munn allmargra manna hjer í deildinni. Með þessu átti jeg ekki við nein einstök atriði, heldur alt, sem hv. þm. Borgf. (P. O.) sagði að því sinni. það kom til af því, að mjer er allvel kunnugt um, hvern hug þingmenn yfirleitt bera gagnvart þeim nefndum, sem settar hafa verið á laggirnar á síðustu tímum, en sjerstaklega þó gagnvart þessari nefnd, sem hjer um ræðir. það sanna og ummæli hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) á þinginu í fyrra. Hann kvað þá mjög hart að orði um verðlagsnefndina. En nú getur hann að sjálfsögðu miklu frekar mælt henni bót, þar sem hann er sjálfur kominn í hana. Víst er um það, að ekki er líklegt, að menn geti verið sjerlega hrifnir af starfi verðlagsnefndarinnar, þegar litið er á það, sem hún hefir komið í framkvæmd, með hliðsjón af því, að hvaða haldi það hefir komið. Og manni hlýtur að verða það ósjálfrátt á að bera saman kostnaðinn og árangurinn, þegar meta á nauðsyn og gagn einhverrar starfsemi. Jeg dreg það ekki í efa, að verðlagsnefndin hafi haft ýmislegt fyrir stafni. En flestir af þeim athöfnum hafa ekki verið til mikilla nytja, því allflestar ákvarðanir, sem nefndin hefir tekið, hafa verið úr gildi numdar nærri jafnharðan, af henni sjálfri eða öðrum, ef þær hafa þá ekki verið svo bandvitlausar, að þær hafi þegar fallið um sjálfar sig í framkvæmdinni, eins og t. d. kæfu- og hangikjötsreglugerðin þjóðkunna.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) vildi reyna að sýna fram á, að verðlagsnefndin hefði komið að einhverjum notum víðs vegar um landið. Það er nú mjög vafasamt. En hjer í Reykjavík hefði mátt vænta, að áhrifa hennar gætti einna mest. En hjer jafnvel orkar tvímælis, hvort starf hennar hafi orðið til bóta eða skaðsemdar. Hún hefir einkum lagst á mjólkurverðið og fiskverðið, og það hefir orðið ofan á, að verðhækkun hefir á yfirborðinu orðið eitthvað minni en framleiðendur ljetu í veðri vaka, að þeir ætluðust til, í hvert sinn sem þeir þóttust þurfa að færa verðið upp. En ávalt hefir þó nefndin orðið að beygja frá kröfum sínum, sjerstaklega með mjólkurverðið, því að framleiðendur gátu hætt að framleiða mjólk eða flytja hana til bæjarins, ef þeir fengju ekki að setja yfirleitt það verð á hana, sem þeir þóttust þurfa.

Þá mintist háttv. þm. (J. B.) á afskifti nefndarinnar af smjörverðinu. Það er nú ábyggilega víst, að hámarksverðsákvörðun nefndarinnar varð ekki smjörneytendum hvarvetna til hagsmuna, því að hún varð blátt áfram til þess að hækka verð á smjöri víða á landinu. Smjörverðið var t. d. töluvert lægra á Norðurlandi, þegar nefndin setti hámarksverðið, en þegar frjettist um það norður, hækkað verðið þar brátt. Því fór þess vegna fjarri, að hámarksverðið yrði smjörneytendum að gagni á öllu landinu, heldur í hæsta lagi að eins á nokkrum hluta þess.

Þetta, sem jeg hefi nú látið uppi, bendir til þess, að full ástæða sje til að athuga, hvort ekki sje rjett að breyta fyrirkomulaginu í það horf, sem háttv. bjargráðanefnd leggur til, það er að segja, ef menn hugsa nokkuð um að endurbæta verðlagsnefndarfyrirkomulagið, í stað þess að leggja nefndina alveg niður. Jeg, fyrir mitt leyti, er ekkert á móti því, að heimild sje til að skipa nefnd eða nefndir, í einhverri mynd, til þess að ákveða verðlag á vörum á ýmsum stöðum, ef þörf gerist. Að vísu er nú á leiðinni frv., sem þegar hefir verið samþ. við 2. umr. hjer í deildinni, þar sem svo er ákveðið, að landsstjórninni skuli heimilt að ákveða, hve mikið skuli lagt á vöru, sem flutt er til landsins. Með þessu er það lagt í hendur landsstjórnarinnar að hafa eftirlit með útsöluveri á aðfluttum vörum. Ef sveitar- eða bæjarfjelög orka ekki þrátt fyrir þetta að halda verði útlendrar vöru hæfilegu, innan sinna takmarka, þá þurfa stjórnendur þeirra að geta snúið sjer til einhverra, sem hafa vald til að kveða á um hámarksverð. Og hvert ættu sveitar- og bæjarstjórnir að snúa sjer í þessu efni, ef ekki til stjórnarvaldanna, eða þeirra nefnda, sem þau setja, hvar sem þeirra væri óskað eða þörf er fyrir þær. Nú er það ætlun hv. bjargráðanefndar, að að eins megi skipa verðlagsnefnd eftir tillögum bæjarstjórna. En jeg vildi skjóta inn í greinina „og sveitarstjórna“, því að það getur hæglega komið fyrir, að slíkrar nefndar verði engu síður þörf í sveit eða kauptúni, sem ekki hefir kaupstaðarrjettindi.

Nú getur vel svo farið, að ein sveit vilji láta ákveða hámarksverð á vöru, sem önnur sveit er mótfallin hámarksverði á. Það mælir á móti því, að hafa eitt og sama hámarksverð fyrir landið alt, og þá um leið að ein og sama verðlagsnefnd sje fyrir alt landið. Það á ekki við að hafa sama verð á innlendri vöru, hvar sem er á landinu, og því síður á það við um verð á útlendri vöru. Það nær ekki nokkurri átt, að hún sje seld sama verði austur í Hornafirði, eða norður á Langanesi, eins og þar sem hún er fyrst lögð á land úr millilandaskipunum, segjum hjer í Reykjavík. Það þýðir ekkert að tala um þá meginreglu, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) hefir verið að tala um, að varan sje seld sama verði hvar sem er á landinu. Hitt, að verðið hljóti að vera misjafnt, hefir ávalt verið og mun ávalt verða meginreglan, enda er það ekki nema eðlileg afleiðing staðháttanna og í samræmi við allar heilbrigðar verslunarmeginreglur. — þá er nær að fylgja tillögum háttv. bjargráðanefndar, og jeg get fallist á, að það sje betra en að nema verðlagsnefndarlögin algerlega úr gildi.

Jeg skal ekkert blanda mjer inn í orðræður háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og háttv. þm. Borgf. (P. O.). En jeg verð að segja, að mjer finst það nokkuð völt staðhæfing hjá háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að hann mundi ekki hafa gert sig sekan í sama glapræði og t. d. aðrir mjólkurframleiðendur hafa gert, ef hann hefði verið í þeirra tölu. Jeg get viðurkent það, að mjer, sem ýmsum öðrum, þótti áminst aðferð mjólkurframleiðenda ekki sem best viðeigandi, en það er dálítið annað en að vera að hrósa sjer fyrir það, að maður hefði breytt öðruvísi, ef veri hefði í þeirra sporum. — Einnig gat háttv. þm. (J. B.) þess, að verðlagsnefndin hefði bygt hámarksverð sitt á smjöri á tillögum þekts manns úr bændastjett, sem hann nefndi. En jeg hefi heyrt, að sá hinn sami maður hafi borið af sjer, að hann ætti nokkurn þátt í því hámarksverði, sem ákveðið var, sínar tillögur hefðu verið á annan veg. Enda var hvergi eins mikil óánægja með smjörverðið eins og fyrir austan fjall, þar sem hv. þm. taldi þennan mann eiga heima.

Jeg skal nú ekki segja meira.

Jeg stóð í rauninni upp aðallega til þess, að skjóta því til nefndarinnar, sem jeg hefi tekið fram, hvort ekki mundi rjettast að heimila verðlagsnefndir víðar en í kaupstöðunum, ef heimild á að gefa.