04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (1685)

107. mál, verðlagsnefndir

Einar Arnórsson:

Jeg þykist sjá einn kost á frv. þessu, eða get öllu heldur skilið, að aðrir hv. þm. sjái þennan kost eða þykist sjá. En hann er sá, að kaup verðlagsnefnda skuli ekki greiðast úr landssjóði, heldur úr bæjarsjóðum eða sveitarsjóðum. En frá mínu sjónarmiði skiftir þetta engu máli. Jeg lít svo á, að það komi í sama stað niður, hvort gjaldið er greitt úr sveitarsjóðum, bæjarsjóðum eða landssjóði.

En hins vegar eru ýmsir ókostir á frv., sem gera það ekki aðgengilegt. í fyrsta lagi sá, að nefndirnar á að skipa eftir tillögu bæjar- og sveitarstjórna, ef brtt. hv. þm. Mýra. (P. Þ.) nær fram að ganga, sem jeg tel sjálfsagt, ef frv. verður samþ. En jeg hygg, að það sje óheppilegt, að sveitar- og bæjarstjórnir ráði því, hvort vörurnar verði verðlagðar og hverjir geri það. Það getur auðveldlega átt sjer stað, að þær líti ekki óvilhalt á það mál, hvort nefndirnar skuli skipaðar eða ekki. Í öðru lagi getur meiri hluti stjórnarinnar verið framleiðendur á einum staðnum, en viðtakendur á öðrum. Hinir fyrri gætu þess vegna verið á móti verðlagi og í fullri andstöðu við hina. Hitt er annað mál, að ef nefndirnar yrðu skipaðar af báðum flokkum, eins og hv. þm. Mýra. (P. p.) tók fram, eru líkur til, að málið yrði athugað frá báðum hliðum.

En svo er annað, sem bent hefir áður verið á með glöggum rökum og hlýtur að verða að taka til greina. Ef brtt. hv. þm. Mýra (P. Þ.) yrðu samþyktar, sem jeg tel sjálfsagt frá sjónarmiði þeirra, er samþykkja vilja frv., getur niðurstaðan orðið ærið skringileg. Jeg skal taka til dæmis Eyrarbakka og Stokkseyri. Stokkseyrarhreppur fær verðlagsnefnd, en Eyrarbakkahreppur enga. Nú setur verðlagsnefnd Stokkseyrarhrepps hámarksverð á kjöt t. d. Þetta ylli verðmun á þessari vöru á tveim nálægum stöðum. Afleiðingin mundi verða sú, að ákvæði nefndarinnar yrðu brotin. En ef ákvæðin yrðu að menn á öðrum þessara staða fengju ekki brotin, mundi það leiða til þess, ekki vöruna, nema framboð yrði meira en eftirspurn. En ef framboð yrði meira en eftirspurn, er óþarft að verðlagsnefnd ákveði verðið.

Svo er ekki þar með búið; það er vel hugsanlegt, að á tveim slíkum stöðum sitji verðlagsnefndir, en þá ber að sama brunni, því að það er engan veginn gefið, að verðlagið verði hið sama á báðum stöðum, og þá stæðist lægra verðið ekki, eða með öðrum orðum, það yrði brotið og yrði að nema það úr gildi. Það getur þá leitt af þessu mjög skringilegt tilfelli.

Jeg veit, að þegar verðlagsnefndin í Reykjavík hefir sett verð á vöru, þá hefir hún leitað sjer upplýsinga um þau atriði, er máli skifta, að því er henni virtist. Jeg man, að hún setti hámarksverð á eina vöruteg. Í kauptúni nokkru úti á landi, og þá skildist mjer, að hún hafi hlotið að leita sjer upplýsinga um þau atriði, er henni þóttu mestu varða. Ein verðlagsnefnd hlýtur líka að geta haft betra yfirlit yfir alt, er að málinu lýtur, heldur en verðlagsnefnd, sem hokrar út af fyrir sig á hverjum einstökum stað. Ef menn, yfir höfuð að tala, vilja ekki una við líkt fyrirkomulag og nú tíðkast, þá er það miklu hreinlegra að afnema með öllu þau lög, sem nú gilda um verðlagsnefndir. Jeg held, að afleiðingin af þessu frv. verði aðallega sú, að upp risi einn allsherjarverðlagsnefndarhrærigrautur, ef heimildin á annað borð væri notuð úti um land, en það skal jeg láta ósagt, hvort svo verður, því að það getur aldrei orðið annað en spádómur. En ekki finst mjer það líklegt, að heimildin verði mikið notuð.