22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

36. mál, stimpilgjald

Magnús Kristjánsson:

Jafnvel þótt mjer sje ljóst, að margir agnúar eru á þessu frv., ýmist fyrirsjáanlegir eða ófyrirsjáanlegir, mun jeg ekki leggjast á móti því, og það af þeirri ástæðu, að tekjuaukaþörf landssjóðs er svo mikil. Að mínu áliti hefði þurft að undirbúa þetta mál betur en gert hefir verið. Nefndin hefir lítið úr því bætt. Brtt. hennar eru ekki mikils verðar, og jafnvel álitamál, hvort þær eru til bóta. Læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvort þær verða samþyktar eða ekki.

Það er eitt atriði í frv., sem mig langaði til að spyrjast fyrir um hvernig eigi að skilja. Þar er talað um, að afgreiðslumenn skipa eigi að bera ábyrgð á stimpilgjaldi af farmskrám. En hverjir eru „afgreiðslumenn skipa“? Helst gæti jeg búist við, að það sje lögreglustjórinn. En nú eiga lögreglustjórarnir að hafa eftirlit með afgreiðslumönnunum, m. ö. o. með sjálfum sjer. Það er víst, að þetta getur valdið misskilningi, því að sjerstaka afgreiðslumenn hafa ekki önnur skip en þau, sem sigla eftir föstum áætlunum.

Mjer er og óljóst, af hverju leggja á 5.000 króna Sekt við, ef farmskrár eru ekki stimplaðar, en alt aðrar reglur eiga að gilda um undandrátt á öðrum skjölum; þá á sem sje að gjalda hundraðsgjald af verðmæti skjalsins. Jeg skil ekki, af hverju þetta háa sektarákvæði er sett um þessa einu tegund stimpilskyldra skjala. Jeg sje ekki ástæðu til þess að hagga samræminu vegna þessara skjala einna.

Jeg vona, að háttv. nefnd taki þetta atriði, farmskrárnar, til sjerstakrar íhugunar. Eins og ákvæðin eru um þær nú, gæti það valdið töfum á ferðum skipa. Enginn afgreiðslumaður mun þora að byrja að ferma fyr en farmskrárnar eru komnar stimplaðar í hans hendur. Þetta gæti valdið miklum óþægindum, því að oft er ekki ákveðið upp á hár, hve mikið eigi að fara með skipi, þótt byrjað sje að ferma það. Þetta er að mínu áliti stærsta atriðið í þessu máli, mikilsverðara en allar aðrar athugahugasemdir, sem komið hafa fram í umræðunum.