04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (1693)

107. mál, verðlagsnefndir

Benedikt Sveinsson:

Það dylst ekki, að sú er skoðun ýmsra þingmanna, og víst margra annara, að sú verðlagsnefnd, sem nú situr, hafi gert lítið gagn. Þess vegna vilja menn nú taka af stjórninni heimildina til að skipa verðlagsnefnd með þeim hætti, sem nú er. En þá er undarlegt, að þessir sömu þm. skuli vilja veita stjórninni heimild til að skipa margar verðlagsnefndir, í stað þessarar einu, sem ekki þykir nein þörf á að halda. í frv. bjargráðanefndar er farið fram á að heimila nefndarskipun í hverjum kaupstað, og í brtt. við það er farið fram á, að skipa megi eina verðlagsnefnd fyrir hvern hrepp á landinu, eða 200 verðlagsnefndir, í staðinn fyrir eina. Aðalástæðan hjá þeim, sem vilja afnema verðlagsnefndina, sem nú situr, virðist vera sú, að kostnaðinum, sem hún. hefir í för með sjer, sje kastað á glæ. Þá verð jeg að segja, að óþarflega miklu verði kastað á glæ fyrir þessar 200 nefndir, því að óhjákvæmilega hlýtur að verða kostnaður við þær, ef þær eiga eitthvað að gera. Jeg held, að þá væri ráðlegra að afnema hreinlega þessa einu verðlagsnefnd og vera ekki að gefa heimild til að stofna 200 nýjar í hennar stað. En ef það er rjett að hafa verðlagsnefndir sumstaðar á landinu, þá er sjálfsagt, að heimilt sje að hafa þær alstaðar. Það er ekki hægt að rökstyðja það, að brýnni nauðsyn beri til að hafa verðlagsnefnd í kaupstað heldur en í kauptúni eða sveit. Þess vegna er brtt. hv. þm. Mýra. (P. Þ.) fyllilega á rökum bygð og í fullu samræmi við þá stefnu, sem hv. bjargráðanefnd hefir tekið, eins og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir líka rjettilega sýnt fram á.

Jeg held, að hv. nefndarmenn hafi ekki fyllilega gert sjer grein fyrir þeim agnúum, sem eru á því, að hafa verðlagsnefndir að eins í kaupstöðum. Hv. þm. S. Þ. (P. J.) kannaðist við, að það væri rjett, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafði sýnt fram á, að það gæti valdið glundroða, ef verðlagsnefndirnar væru margar. En hann hjelt því fram, að því að eins væri nokkur hætta á glundroða, að heimilað væri að skipa nefnd í hverjum hreppi. Hann taldi engar líkur til, að slíkur glundroði gæti orðið, ef nefndir væru að eins í kaupstöðunum, og nefndi til Seyðisfjörð, Akureyri og Ísafjörð. Rökstuddi hann mál sitt með því, að svo langt væri milli þessara bæja, og samgöngur og viðskifti þeirra á milli svo lítil, að ekki væri hætt við, að ákvæði nefndanna rækjust neitt á. En hv. þm. (P. J.) virtist gleyma því, að hjer á næstu grösum er einn kaupstaðurinn, í Hafnarfirði: Ef nú sæti sín verðlagsnefndin í hvorum þessara bæja, og ákvæði sitt hámarksverðið hvor á einhverri vörutegund, þá yrði niðurstaðan sú, að varan flyttist öll til þess bæjarins, sem hefði ákveðið hærra hámarksverðið. Ef t. d. verðlagsnefndin hjer hefði ákveðið hærra hámarksverð en nefndin í Hafnarfirði, þá drægist öll verslun með þá vörutegund hjeðan til Hafnarfjarðar, svo framarlega, sem þar væri nóg eftirspurn. par að auki er það að athuga, að ef verðlagsnefnd er skipuð eftir tillögum bæjarstjórnar, þá mundi hún ekki fá víðara valdsvið en það, sem bæjarstjórnin ræður yfir. Það hefði ekki neina þýðingu að ákveða verðlag á vöru í Reykjavík, ef það ætti að eins að gilda hjer á staðnum. Til hvers væri það t. d. að setja hámarksverð á kartöflur, ef framleiðendur mega selja þær fyrir hvaða verð sem þeim sýnist á næstu nesjum, bæði á Seltjarnarnesi, Kjalarnesi og Akranesi. Þegar framboð væri mjög takmarkað, mundu menn fara þangað að kaupa kartöflurnar, fyrir það verð, sem seljandinn vildi á þær setja, svo hámarksverðið kæmi ekki að neinu haldi. Framleiðandinn mundi selja kartöflurnar heima hjá sjer, og flytja þær svo fyrir einhverja þóknun til neytendanna í bænum. En ef nefndin hefir stærra vald svið, þá er hægt að girða fyrir slíkt, eins og t. d. í haust, þegar kaupmenn hjer í bænum ætluðu að kaupa upp allar kartöflur, til að okra á þeim. Þetta frv. er því ekkert nema fálm út í loftið, eins og það er. Það lítur líka út fyrir, að hv. frsm. (S. St.) finnist það eitthvað gallað, þar sem hann telur það ekki útilokað, að valdsvið nefndanna nái út fyrir bæina. Það þyrfti auðvitað svo að vera. En þá er maður kominn út fyrir það, sem rjett er að álykta. Því að nefnd, sem skipuð er eftir till. bæjarstjórnar og kostuð af bæjarfje, getur alls ekki haft neitt vald nema þar á staðnum. Þó að verðlagsnefnd sje skipuð hjer í Rvík, þá geta framleiðendur selt sína vöru í sveitunum hjer í kring, fyrir hvaða verð sem þeim sýnist. Það er þá komið undir verðlagsnefndum Mosfellssveitar eða Kjalarness, hverju verði má selja vöruna í þeirra umdæmum.

Það getur vel verið, að þessi heimild yrði ekki notuð nema á stöku stað. En það getur líka verið, að hreppsnefndir mundu sækja um það nokkuð alment, að verðlagsnefndir verði skipaðar. Það er t. d. ekki óhugsandi að framleiðendum þyki ilt, að afurðir sjeu seldar út úr sveitinni fyrir of lítið verð. Og eftir frv. má alveg eins skipa nefnd til að ákveða lágmarksverð á vöru eins og hámarksverð. Hvað ætli menn hjer í bænum segðu við því, ef þetta frv. yrði til þess, að verðlagsnefnd á Akranesi bannaði að flytja þaðan kartöflur, sem seldar væru undir 50 kr. tunnan?

Til þess að fá einhverja heila brú í frv. og til þess að gera lítið úr þeim misfellum, sem af því gætu leitt, er svo talað um, að skjóta megi til stjórnarinnar úrskurðum nefndanna, til þess að laga misfellurnar. Eða ef ósamræmi yrði milli hinna einstöku hreppa, þá sje ekki annað en að þær haldi sameiginlegan sýslufund. En mundi það fyrirkomulag nokkru hentugra og kostnaðarminna? Og ef verðlagsnefndir kaupstaðanna ættu að senda stjórninni skýrslur sínar, til þess að hún gæti lagt úrskurði á málin, hygg jeg, að stjórninni þætti umsvifaminna að hafa eina verðlagsnefnd, svo sem nú er.

Þetta frv. er yfir höfuð svo fult af göllum og misfellum, að mig furðar á því, að það skuli hafa verið borið fram. Jeg býst þó við því, að það slampist í gegnum hv. deild; menn eru hjer svo brjóstgóðir, að þeir samþykkja marga vitleysuna, svo sem nærri því var orðið um frv. um vjelþurkun á kjöti, sem þó loks tókst að drepa í gær. En þó að frv. þetta verði samþykt hjer, vænti jeg þess, að það sleppi ekki út úr þinginu, heldur verði því þá banað í hv. Ed.