22.05.1918
Efri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

36. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg get verið háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) þakklátur fyrir athugasemdir hans, því að þær hagga ekki við brtt. nefndarinnar.

Þótt svo fari, að lög þessi um stimpilgjald verði almenn, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að þau sjeu algerlega tæmandi þegar í stað. Hjer er ekki heldur gert ráð fyrir stimpilskatti af öllum skjölum.

Jeg get tekið til dæmis vöruvottorð, sem ekki eru hjer með talin, sömuleiðis fararleyfisbrjef, sem líka er slept.

En þar sem hjer hefir verið getið um lausamenskubrjef, þá skal jeg geta þess, að jeg skildi greinina svo, að þau heyrðu þar ekki undir, því að upptalningin sýnir, að þar er að eins átt við leyfisbrjef með konungsinnsigli.

Það var talað um, að gjaldið væri lágt, en miðað við frímerkjagjaldið er það ekki lágt, þar sem hjer er um miklu hærri upphæðir að ræða.

Að því er ábyrgðina snertir, þá vil jeg benda á, að við lögreglustjórar höfum átt því að venjast að bera ábyrgð á allri okkar innheimtu og það líka fyrir 2% þóknun. En það er ekki svo að skilja, að jeg líti svo á, að gjaldið mætti alls ekki vera hærra.

Um vígslubrjefin er það að segja, að brtt. nefndarinnar fer fram á að sleppa þeim líka, til þess að fá samræmi í greinina, og nefndin leit svo á, að fólk mundi helst hafa ráð á að fórna 5 kr., er það gifti sig. Það mundi ekki seinna vænna.

Að því er snertir opinberar fullkomnar dómsgerðir, þá er ekki til þess ætlast, að valdsmaður taki gjaldið af sjálfum sjer, heldur er átt við, að maður kemur til yfirvaldanna og beiðist afgreiðslu.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) sagði um 9. gr. frv., um frestun á greiðslu gjaldsins, þá lít jeg svo á, að sje fresturinn gefinn, þá geti viðkomandi valdsmaður enga ábyrgð haft á því gjaldi.

Annars er það vani, að innheimtumaður hafi rjett til að heimta gjaldið áður en skjalið er látið af hendi.

Í því sambandi vil jeg svara því, sem háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði um afgreiðslumenn skipa. Með því er að sjálfsögðu átt við afgreiðslumenn áætlunarskipa, þá menn, sem hafa við það sjerstaka stöðu.

En vitanlega hefir lögreglustjóri í hendi sjer að afgreiða ekki skipaskjölin fyr en hann hefir fengið farmskírteinin. En þá er það gert til að ljetta undir, að skrifa megi undir, þótt farmskírteinin sjeu ekki í fullu lagi. Getur það oft komið sjer vel, til þess að þurfa ekki að hefta það, að skip komist út.

Jeg get tekið undir það með háttv. þm. Ak. (M. K ), að margar af brtt. nefndarinnar eru ekki stórvægilegar, en hún áleit það skyldu sína að færa til betra vegar, þar sem hún sá þess kost.

Að sjálfsögðu mun nefndin einnig taka til athugunar bendingar háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) til 3. umr.