29.04.1918
Efri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (1708)

22. mál, einkaréttur til verslunar með smjör og tólg

Frsm. minni hl. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg vænti þess, að hv. deild hafi kynt sjer nál. minni hl., á þgskj. 63, og sjeð ástæður þær, sem hann hefir fram að færa. Vil jeg þó bæta þar við nokkrum orðum. Aðaltilgangur frv. virðist eiga að vera sá, að auka feitmetisframleiðslu í landinu, en það þykir minni hl. ekki líklegt að takist með því, að leggja höft á viðskifti manna á þeirri vöru. Þótt hámarksverðið sje hækkað um 50 aura á kg. á hvorum flokki smjörsins, þá er það að vísu bót frá því, sem var í frv., en nær þó ekki gangverði nú hjer sunnanlands. Þess verður líka að gæta, að seljendur fái ekki þetta verð óskift; nokkuð fer til milliliðanna tveggja, þó lítið sje.

Gert er ráð fyrir, að umsjónarmaður fái 1% af verði þess smjörs, er hann gefur skýrslu um, og eftir brtt. meiri hl. eiga matsmenn að fá 5 au. af hverju kg. Jeg minnist ekki á þetta af því, að mjer þyki laun þessi of há, en þau dragast þá frá söluverðinu. Mjer þykir líka mjög ótrúlegt, að starf umsjónarmanna þessara yrði að nokkrum notum, því að skýrslur, sem safnað er fyrir 20. júní, mundu naumast gefa rjetta hugmynd um, hve mikið yrði selt af smjöri yfir sumarið.

Eftir frv. var framleiðanda leyfilegt að selja smjör og tólg beint til neytanda, til eigin heimilisnota, án ákvæðis um hámarksverð, en nú hefir sú undanþága verið feld burt með brtt. meiri hl. Meiri hl. getur ekki skilið, hvernig sú breyting megi til bóta verða, því að hvernig á að hafa eftirlit með slíkri sölu? Hver getur vitað um það, hvort jeg t. d. sel nágranna mínum undir eða yfir hámarksverði? Mjer virðist það beint hlægilegt að setja sektir við broti á slíku ákvæði, sem ógerningur er að vita hvort haldið er eða ekki.

Hv. frsm. meiri hl. (S. F.) fór nokkrum orðum um nál. okkar, og taldi hann það eins og ríki, sem er sjálfu sjer sundurþykt. Jeg vil ekki líkja skoðun hans við ríki, þótt segja megi um hana, með engu minni rjetti, að hún sje sjálfri sjer sundurþykk, þar sem því er haldið fram, að lög þessi myndu auka framleiðsluna á Norðurlandi, en draga úr henni á Suðurlandi. Mundi þá ekki verða tvísýnt um ágóðann?

Jeg get ekki sjeð, að meiri þörf sje á, vegna framleiðenda, að lögbjóða með þvingunarlögum hámarksverð á þeirri vöru, sem hægast er að fá sæmilega hátt verð fyrir. Hv. flm. (S. F.) tekur það fram í greinargerð frv., að þvingunarlög sjeu neyðarúrræði, sem ekki ætti að grípa til nema í ítrustu nauðsyn, og er það hverju orði sannara, en hitt kemur kynlega fyrir, að lasta þvingunarlög í greinargerð fyrir þvingunarlagafrv., eins og hann gerir þar.

Það er rjett, að nál. minni hl. heldur því fram, að frv. mundi ekki verða til þess að auka framleiðsluna, en sýnir jafnframt fram á, hvernig færi, ef sú skoðun reyndist ekki rjett og landsversluninni bærist ef til vill of mikið af smjöri, að niðurstaðan verður sú sama, hvort heldur sem yrði, að frv. mundi ekki koma að neinu gagni.

Greinargerð hv. flm. (S. F.) og nál. meiri hl. tekur heldur ekki dýpra í árina en það, að segjast álíta, að frv. geti orðið til nokkurra bóta.

Þá er eftir að líta á, hver not kaupendur myndu hafa af lögum þessum. Þar hefir maður reynsluna fyrir sjer hvað hámarksverðið snertir. En það er öllum kunnugt, að um það hefir ekki verið skeytt, og hefir það því ekki að neinu gagni komið. Og litlar líkur eru til þess, að ákvæði það yrði betur haldið fyrir sektarákvæðin.

Þá má líka benda fylgismönnum frv. á það, að auknar fráfærur mundu draga úr tólgarframleiðslunni, og er það atriði vert athugunar fyrir hv. meiri hl., sem ætlar sjer að koma fram með brtt. við 3. umr., í sambandi við það, að í ráði er að stofna hjer smjörlíkisverksmiðju.

Jeg skal svo ekki eyða fleiri orðuni að frv. að sinni, en legg til, að það verði felt.