29.04.1918
Efri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (1711)

22. mál, einkaréttur til verslunar með smjör og tólg

Eggert Pálsson:

Jeg mintist lítið eitt á frv. þetta, þegar það var til 1. umr., og taldi þá ekki gerlegt að samþ. það. Bjargráðanefndin hefir síðan haft frv. til meðferðar, og meiri hluti hennar leggur til, að það verði samþ. með brtt. þeim, sem prentaðar eru á þgskj. 62. er brtt. þessar geta ekki á neinn hátt breytt áliti mínu á frv.

Það má segja, að eiginlega sje þar að eins um eina eiginlega breytingu að ræða, þá breytingu, að setja hámarksverð á alt smjör, jafnt það, sem framleiðendur selja beint til neytenda, sem hitt. þetta er stærsta og veigamesta brtt., en jeg get tekið undir með hv. þm. Snæf. (H. St.), að jeg er hræddur um, að þessi brtt. nái ekki tilgangi sínum. Það hefir áður verið reynt hjer á landi að hafa hámarksverð á smjöri, en það hefir alt farið út um þúfur, og það er ósköp eðlilegt, að hámarksverð á íslenskum afurðum komi aldrei að notum. Því ef of lítið er framleitt af vörunni, þá neyta neytendur allra ráða til að afla sjer hennar, og af því leiðir, að þeir kaupa hana hærra verði en hámarksverðið ákveður, og enginn hirðir um að fara eftir því, hvorki sá, sem selur, nje sá, sem kaupir.

Jeg gat þess um daginn, að undirstaðan undir frv. þessu væri ofsjónin yfir mun, sem er á smjörverðinu á Suðurlandi og Norðurlandi, enda er það skýrt tekið fram í greinargerðinni fyrir frv., að það sje skylda þings og stjórnar að laga þetta. En jeg hygg, að það sje með öllu ókleift að kippa slíku í lag í jafnvíðáttumiklu landi og Ísland er. Og ef gera á svo þegar um mismunandi smjörverð er að ræða, á og að gera það þegar um mismunandi verðlag er að ræða á öðrum vörutegundum. Við vitum t. d., að það kemur oft fyrir, að fiskur er margfalt dýrari hjer í Reykjavík en víða annarsstaðar úti um land. Þetta fer vitanlega eftir því, hversu mikið aflast og hversu mikil eftirspurnin eftir þeirri vöru er. En við þurfum ekki að ætla oss þá dul, að laga slíkan mismun með lögum. Það væri áfar óholt fyrir þjóðfjelagið, ef slíkt væri reynt. Og eins og því er háttað í þessum efnum, svo er það líka í öðrum.

Hið fyrsta er mörgum verður að spyrja, er hann sjer frv. þetta, er: Hverjum er frv. í hag? Er það í hag framleiðenda, eða er það í hag neytenda? Ef það er hvorugum í hag, þá hlýtur frv. að vera þýðingarlaust.

Það hefir verið deilt um það, hvort af frv. mundi leiða aukin smjörframleiðsla, og hv. flm. frv. (S. F.) sagði nýlega, að ekki væri hægt að segja neitt um það. Í greinargerð þeirri, er fylgir frv., býst hann við, að smjörframleiðslan muni aukast á Norðurlandi, en minka á Suðurlandi, en það er því næst, sem að segja, að smjörframleiðslan muni standa í stað, þótt frv. yrði samþ. En annaðhvort ætti hún að minka eða aukast við svona löguð lagaákvæði.

Ef smjörframleiðslan minkaði, þá ber að sama brunni og áður, að eftirspurnin verður meiri, og verðið hækkar og hækkar, hvað svo sem lög segja þar um. Hámarksverðið, sem til er tekið í frv., mundi þá reynast algerlega máttlaust. Menn mundu þá finna ýms ráð til þess að fara í kringum það, t. d. með því að taka svo og svo mikinn flutningskostnað. En ef framleiðslan aftur á móti ykist, þá liggur í hlutarins eðli, að smjörinu væri haldið með ákvæðisverði frv. í óeðlilega háu verði. Landsstjórnin væri þá sem sje skyld til að kaupa alt það smjör, þótt meira en nóg væri handa landsbúum, fyrir hið lögákveðna háa gjald.

Og til þess að forðast beint tap yrði hún að selja smjörið til útlanda að meira eða minna leyti, eða með öðrum orðum að gefa sjálfri sjer undanþágu frá útflutningsbanni því, sem nú er á feitmeti. En að hún leyfi sjer þann útflutning, sem hún bannar öðrum, er harla óviðfeldið og næsta einokunarkent.

Jeg hygg, að þó að smjörverðið sje hátt nú sem stendur, þá sje ekki ástæða til þess að demba þannig vöxnum þvingunarlögum á þjóðina fyrir þær sakir. Það virðist rjettara að líta á, hverjar ástæður liggja til þess, að smjörverðið er svo hátt, sem nú er raun á. Og ástæðan til þess virðist liggja opin fyrir. Við vitum, að síðastliðin tvö ár hefir heyfengur manna hjer á Suðurlandi brugðist meira og minna. Heyin hafa verið hrakin og skemd, sjerstaklega taðan, og þá er eðlileg afleiðing af því, að kýr gera minna gagn en ella hefði verið, ekki að eins að vetrarlagi, heldur einnig að sumri til, því kýr þurfa langan tíma til að ná sjer eftir ljelegt fóður, eins og öllum má vera auðsætt. Og þegar þessa er gætt, þá hljóta allir að vona, að hjer sje að eins um bráðabirgðahækkun að ræða, sem engin ástæða er til að löggjafarvaldið fari að skifta sjer af. Það má ganga út frá því sem sjálfsögðu, að strax er árferði batnar og heyfengur bænda verður betri, þá hljóti smjörframleiðslan að vaxa og þá jafnframt verðið að lækka af sjálfu sjer, án íhlutunar löggjafarvaldsins.